150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[16:55]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um Orkusjóð, á þskj. 1083, 639. mál. Með frumvarpinu er lagt til að sett verði sérstök lög um starfsemi Orkusjóðs.

Sögu Orkusjóðs má rekja aftur til ársins 1946 og voru verkefni hans lengi vel falin í almennri uppbyggingu raforku- og hitaveitna um allt land. Á síðari árum hafa áherslur sjóðsins að miklu leyti færst almennt yfir í stuðning við orkuskipti og notkun innlendra endurnýjanlegra orkugjafa, t.d. stuðning við varmadælur á köldum svæðum og uppsetningu hleðslustöðvar fyrir rafbíla á landsvísu.

Í lögum er fjallað um Orkusjóð og hlutverk hans í 8. gr. laga um Orkustofnun, nr. 87/2003. Hefur sú hlutverkalýsing verið óbreytt um nokkur ár og takmarkar gildandi lagarammi að vissu leyti svigrúm stjórnvalda til að fela Orkusjóði víðtækari verkefni en þau sem þar eru tilgreind. Með hliðsjón af þeirri reynslu og þekkingu sem byggst hefur upp hjá Orkusjóði telst æskilegt að ákveðið svigrúm sé til staðar til að fela Orkusjóði að styrkja orkutengd verkefni sem eru á hverjum tíma í samræmi við almenna stefnumótun stjórnvalda, jafnt á sviði orkumála, nýsköpunar, byggðamála og loftslagsmála.

Með frumvarpinu eru því lagðar til breytingar til að kveða skýrar á um hlutverk Orkusjóðs, fyrirkomulag og stjórnsýslu. Það er liður í almennri eflingu sjóðsins í samræmi við vaxandi hlutverk hans á undanförnum árum og almenna stefnumótun stjórnvalda á sviði orkumála. Orkusjóður gegnir lykilhlutverki í aðgerðum stjórnvalda í orkuskiptum, innleiðingu nýsköpunar í orkumálum og samspili orkumála og loftslagsmála. Af þeim sökum er talið rétt að styrkja stoðir Orkusjóðs og regluverk með setningu sérlaga um sjóðinn. Var við samningu frumvarpsins höfð hliðsjón af öðrum sérlögum um sjóði á vegum ríkisins, svo sem lög um fjarskiptasjóð.

Sem kunnugt er hefur undanfarin tvö ár verið unnið að langtímastefnu í orkumálum, orkustefnu, og er ráðgert að hún líti dagsins ljós á næstu vikum. Efling Orkusjóðs styður við langtímasýn í orkumálum þar sem hann hefur reynst vel sem eitt helsta verkfæri stjórnvalda við að koma til framkvæmda ýmsum aðgerðum sem tengjast markmiðum og áherslum stjórnvalda um orkuskipti og uppbyggingu orkuinnviða. Með frumvarpinu er tryggð viðeigandi lagaumgjörð um Orkusjóð til að stjórnvöld hafi kost á og geti beitt honum með skilvirkum og hagkvæmum hætti til að ná fram markmiðum stjórnvalda. Nánar tiltekið er með frumvarpinu lagt til að hlutverk Orkusjóðs verði skilgreint með þeim hætti að það verði að stuðla að hagkvæmri nýtingu orkuauðlinda landsins með styrkjum eða lánum, einkum til aðgerða er miða að því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og auka nýtingu á innlendum endurnýjanlegum orkugjöfum. Jafnframt er með frumvarpinu lagt til að Orkusjóður styðji við verkefni sem stuðla að orkuöryggi og samkeppnishæfni á sviði orkumála og orkutengd verkefni á grundvelli orkustefnu, nýsköpunarstefnu, byggðastefnu og stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum.

Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að Orkusjóður verði áfram í eigu íslenska ríkisins og heyri stjórnarfarslega undir ráðherra orkumála sem skipar þriggja manna stjórn sjóðsins. Kemur stjórnin í stað núverandi ráðgjafarnefndar Orkusjóðs. Stjórn Orkusjóðs hefur yfirumsjón með umsýslu sjóðsins í samræmi við hlutverk hans og annast Orkustofnun daglega umsýslu hans undir yfirstjórn stjórnar sjóðsins. Stjórn sjóðsins gerir tillögu til ráðherra um lánveitingar og framlög úr honum í samræmi við áherslur og stefnumótun stjórnvalda sem og fjárhags og greiðsluáætlun sjóðsins.

Verði frumvarpið að lögum verður Orkusjóður því betur í stakk búinn til að taka við verkefnum sem stjórnvöld fela honum án þess að það leiði til aukins kostnaðar fyrir ríkissjóð. Fjármögnun Orkusjóðs er síðan sjálfstætt umræðuefni og er ekki hluti af því frumvarpi sem hér er mælt fyrir.

Að lokum vil ég nefna að Orkusjóður hefur sögulega gegnt ákveðnu hlutverki þegar kemur að stuðningi við uppbyggingu orkuinnviða í landinu og gerir það enn, samanber sérstaka styrki Orkusjóðs til uppbyggingar rafhleðslustöðva á landsvísu. Ég nefni þetta í því samhengi að nýverið voru kynntar tillögur átakshóps stjórnvalda um eflingu innviða til næstu ára og áratuga, ekki síst á sviði raforkumála. Í því samhengi er til skoðunar hver aðkoma Orkusjóðs gæti orðið að þeim stuðningsaðgerðum sem er að finna í þeirri aðgerðaáætlun sem nú liggur fyrir í samráðsgátt Stjórnarráðsins. Of snemmt er að segja nánar til um það á þessu stigi annað en að reynslan er góð af því að fela sjóðnum slík verkefni. Ég tel því rétt að skoða það nánar.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. atvinnuveganefndar til umfjöllunar.