150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[16:59]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Hér er að sjálfsögðu á ferðinni mjög mikilvægt mál og varðar mikilvægt málefni sem er Orkusjóður. Í greinargerðinni er fyrst fjallað um sögu Orkusjóðs sem hefur verið starfræktur í 73 ár, segir hér, með mismunandi heiti eins og Raforkusjóður og Jarðhitasjóður. Sjóðurinn hefur gegnt mjög mikilvægu hlutverki fyrir landsmenn, ekki síst í því að greiða fyrir jarðhitaleit á köldum svæðum. Slíkt er að sjálfsögðu mjög þjóðhagslega hagkvæmt þar sem ríkissjóður ver háum fjárhæðum í niðurgreiðslur á rafmagni til húshitunar. Auk þess má ekki gleyma því að hitaveita er mikil lífsgæði en um 90% heimila í landinu njóta þeirra lífsgæða en 10% ekki.

Í greinargerðinni er rætt um vaxandi hlutverk Orkusjóðs á undanförnum árum og því talið rétt að styrkja stoðir hans og regluverk með setningu sérlaga um sjóðinn. Ég held að það sé gott og vel. Einnig er rætt um að hér sé verið að gefa sjóðnum færi á að styðja við fjölbreyttari verkefni. Það kemur sérstaklega fram að sjóðurinn sé farinn að taka þátt í orkuskiptum og áherslan frá árinu 2019 hefur verið í þeim efnum og m.a. styrkt hleðslustöðvar. Í lok greinargerðarinnar sem fjallar um mat á áhrifum segir að frumvarpið, verði það að lögum, muni ekki hafa áhrif á fjárhag ríkisins.

Það sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra er að nú eru komnar nýjar áherslur eins og með orkuskipti: Hvernig er fjármögnun sjóðsins háttað varðandi það að styrkja áfram mikilvæg verkefni eins og jarðhitaleit o.s.frv.? Er hætta á því að nýjar áherslur (Forseti hringir.) verði til þess að sjóðurinn fari kannski að horfa fram hjá þeim verkefnum sem hann var fyrst og fremst (Forseti hringir.) hugsaður til í upphafi, sem eru að mínum dómi afar mikilvæg?