150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[17:02]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Fjárframlög til sjóðsins eru lág og hafa verið lengi. Ég held að þau séu um 32 millj. kr. á ári. Það verður engin breyting þar á með þessu frumvarpi, það er ekki verið að leggja til frekari fjármuni í sjóðinn. Þá væri það sjálfstæð ákvörðun og væri að mínu viti góð ráðstöfun á fjármagni. Sjóðurinn hefur fram til þessa fengið verkefni og fjármagn fylgt með, og það er m.a. ástæðan fyrir því að við erum að leggja til sérstök lög um hann til að hann sé enn betur í stakk búinn til að taka við verkefnum. Í aðgerðaáætlun stjórnvalda eru töluverðir fjármunir og svo er Orkusjóði í rauninni falin framkvæmd og umsýsla ákveðinna verkefna þar inni. Fjármunirnir fara ekki beint inn í Orkusjóð heldur er honum falin framkvæmd og umsýsla ákveðinna verkefna eins og til að mynda rafbílavæðingu. Það er bara spurning um tilfærslu og ekki er verið að leggja til neinar breytingar þar á heldur er verið að gera sjóðinn tilbúnari til að taka við verkefnum annars staðar frá. Það er síðan auðvitað sjálfstæð ákvörðun að fjármagna sjóðinn enn frekar þannig að hann geti beitt sér fyrir og í þeim verkefnum sem sérstaklega eru tilgreind.