150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

vörumerki.

640. mál
[17:07]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vörumerki, nr. 45/1997, með síðari breytingum, mál nr. 640, þskj. 1084.

Með frumvarpinu er lagt til að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2015/2436, um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vörumerki, sem felur í sér endurskoðun á fyrri tilskipunum um vörumerki. Með frumvarpinu er jafnframt lagt til að ákvæði laga um félagamerki verði í þágu einföldunar felld inn í lög um vörumerki. Þá eru lagðar til nokkrar breytingar á ákvæðum laga um vörumerki til að gera þau skýrari og til að auka samræmi við önnur sérlög á sviði hugverkaréttar og norræn lög um vörumerki.

Markmið frumvarpsins er að færa lög um vörumerki til nútímahorfs með því að gera þau notendavænni og skilvirkari, aðgengilegri almenningi og í samræmi við nýjustu tækni. Frumvarpið hefur í för með sér aukna möguleika og umbætur í vernd hugverkaréttinda og getur bætt samkeppnisstöðu fyrirtækja og einstaklinga sem vilja vernda hugverkaréttindi.

Meginbreytingin sem lögð er til í frumvarpinu er að horfið er frá þeirri kröfu að vörumerki þurfi að vera „sýnileg tákn“. Þess í stað er gert ráð fyrir að vörumerki geti verið hvers konar tákn sem annars vegar geti greint vöru og þjónustu eins aðila frá eins eða sambærilegum vörum og þjónustu annarra og að unnt sé að tilgreina þau í vörumerkjaskrá á þann hátt að greina megi með skýrum og nákvæmum hætti til hvers einkarétturinn nær. Með þessu er gert kleift að skrá merki á borð við liti, hljóð, lykt, hreyfimyndir o.fl.

Í frumvarpinu er auk þess kveðið skýrar á um inntak einkaréttar til merkis en nú er, þ.e. möguleika í tengslum við beitingu réttarins sem og takmarkanir á honum auk þess sem skerpt er á rétti til að leggja bann við notkun merkis. Auk þess er lögð til sú breyting að verndartími skráðra vörumerkja hefjist á umsóknardegi í stað skráningardags. Í frumvarpinu er lagt til að bætt verði við almenn skráningarskilyrði merkja. Þannig verði unnt að hafna skráningu sem sýni eingöngu lögun eða aðra eiginleika sem leiða af eðli vöru, eru nauðsynlegir vegna tæknilegs hlutverks vöru eða sem auka verðmæti hennar svo um munar og ef merki samanstanda af eða sýna í veigamiklum þáttum eldra skráð plöntuyrkisheiti. Því er einnig bætt við með skýrari hætti en áður að hafna megi skráningu merkis ef umsókn er lögð fram í vondri trú. Þá er lagt til að skráningaryfirvöld geti synjað um skráningu merkis að hluta en sú tillaga felur í sér lögfestingu stjórnsýsluframkvæmdar sem nú er.

Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ákvæði um notkunarleysi sem vörn í andmælamáli. Tillagan felur í sér að eigandi merkis sem andmælt er geti farið fram á að andmælandi sýni fram á notkun þess merkis sem andmælin byggja á. Í frumvarpinu er einnig settur skýrari rammi um ferli við stjórnsýslulega niðurfellingu skráðra vörumerkja. Er lagt til að ferlinu verði skipt annars vegar í ógildingu vörumerkjaskráningar og niðurfellingu vörumerkjaskráningar. Réttaráhrif þessara tveggja úrræða eru ólík og er skýrar kveðið á um ferli þessara úrræða.

Ákvæði um félagamerki og ábyrgðar- og gæðamerki eru útfærð í frumvarpinu með skýrari hætti en áður. Aukin áhersla er lögð á reglur sem fylgja skuli skráningu félagamerkja, endurskoðun þeirra sem og birtingu á tilkynningu þar um, auk þess sem heimilt verður að ógilda skráningu félagamerkja fullnægi reglur um þau ekki í þar til gerðum skilyrðum og láti eigandi hjá líða að skila uppfærðum reglum til birtingar.

Auk framangreinds eru lagðar til breytingar að norrænni fyrirmynd um ábendingar þriðja aðila um skráningu vörumerkja og umsóknartíma og afnám kröfu um lögvarða hagsmuni vegna kröfu um stjórnsýslulega niðurfellingu vörumerkis.

Virðulegur forseti. Að lokinni umræðunni legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. atvinnuveganefndar til umfjöllunar.