150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

sveitarstjórnarlög.

648. mál
[18:10]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, um neyðarástand í sveitarfélagi. Ég kýs að koma hingað upp til að útskýra ákveðinn misskilning sem ég held að hv. flutningsmaður málsins, Líneik Anna Sævarsdóttir, hafi á málinu sjálfu. Það væri jákvætt að fá hv. þingmann í andsvar við mig að lokinni þessari ræðu til að fá það á hreint hvort mögulega sé bara ákveðinn misskilningur í gangi af hálfu hv. þingmanns, miðað við þann málflutning sem ég hef heyrt frá henni. Eins og ég skildi hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur finnst mér hún afmarka undanþáguheimildina sem við ræðum hér, við 9. gr. sveitarstjórnarlaga, um samþykkt um stjórn, stjórnsýslu og fundarsköp. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Sveitarstjórnir skulu gera sérstaka samþykkt um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélagsins og um meðferð þeirra málefna sem sveitarfélagið annast. Þar skal einnig kveðið á um fundarsköp sveitarstjórnarinnar og nefnda hennar. Samþykktin nefnist samþykkt um stjórn sveitarfélagsins og skal send ráðuneytinu til staðfestingar.“

Eins og ég skildi hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur heldur hún því fram að sú undanþáguheimild sem verið er að veita ráðherra, og í raun sveitarstjórnum líka, eigi bara við um þetta ákvæði í sveitarstjórnarlögum. Það sé bara verið að gefa sveitarstjórnum heimild til að óska eftir því að fá að víkja frá þessari samþykkt sem þeim ber skylda til að setja samkvæmt sveitarstjórnarlögum. En það er bara ekki svo, virðulegi forseti, og það kemur mjög skýrt fram í greinargerð með frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Með frumvarpinu er lögð til sú breyting á 131. gr. sveitarstjórnarlaga að ráðherra sveitarstjórnarmála geti veitt einstökum sveitarfélögum þar sem neyðarástand varir, t.d. vegna náttúruhamfara, eða öllum sveitarfélögum, heimild til að haga stjórnsýslu sinni þannig að vikið sé frá tilteknum ákvæðum sveitarstjórnarlaga í allt að fjóra mánuði í senn. Ekki er tekið fram í frumvarpsgreininni til hvaða lagaákvæða sveitarstjórnarlaga slík ákvörðun geti náð […]“

Sem sagt ekki samþykkta heldur lagaákvæða. Við erum ekki að tala um neinar samþykktir eða fundarsköp sem sveitarstjórnir setja sér. Við erum að tala um sveitarstjórnarlög. Það kemur fram í greinargerðinni að ekki sé tilgreint til hvaða ákvæða, til hvaða lagagreina, í þessum lögum sé verið að vísa til. Einu skilyrðin sem þurfa að vera fyrir hendi eru að um sé að ræða neyðarástand, sem ekki er skilgreint nánar heldur, og að það sé til að tryggja að sveitarstjórn sé starfhæf við neyðarástand og til að auðvelda ákvörðunartöku.

Í sveitarstjórnarlögum er að finna ýmis ákvæði um aðkomu minni hlutans, um rétt hans til að vera upplýstur um þær ákvarðanir sem meiri hlutinn ætlar að taka, um rétt hans til þess að koma skoðunum sínum á framfæri. En það er örugglega til þess að auðvelda og flýta ákvörðunartöku að þessi minni hluti sé ekkert að skipta sér af lengur. Það er hættan, hv. þingmaður, sem við erum að vísa til. Það eru engar takmarkanir á því hvaða ákvæði á að taka úr sambandi. Vissulega er það gert með ákvörðun sveitarstjórnar og vissulega með ákvörðun ráðherra en það er enginn annar neyðarhemill þarna sem kemur í veg fyrir það. Nú er ég ekki að reyna að atyrða á nokkurn hátt núverandi sveitarstjórnarráðherra, en þetta lagaákvæði er ekki með neinum tímamörkum. Það segir ekki: Akkúrat núna erum við með fljótlegt fix vegna þess að við höfum ekki tíma til að afmarka þetta betur, skilgreina nákvæmlega hvað það er sem við viljum gefa ráðherra og sveitarstjórnum eða meiri hluta sveitarstjórna heimild til að gera. Allt í lagi. En það er ekkert sólarlagsákvæði í þessu frumvarpi. Það er ekkert sem segir: Eftir þrjá mánuði, eftir sex mánuði, eftir ár ætlum við að vera með miklu betur skilgreindar undanþágur frá þeim mikilvægu lýðræðisreglum sem gilda um sveitarstjórnar okkar, um réttindi minni hlutans, um aðkomu almennings, um lýðræðið í sveitarstjórnum. Allt þetta er að finna í sveitarstjórnarlögum.

Það er mjög skýrt í greinargerðinni að átt er við ákvæði sveitarstjórnarlaga sem snúa að því hvernig sveitarstjórnum er stjórnað, ekki einhverjum samþykktum, ekki 9. gr. sveitarstjórnarlaga, enda þyrfti þá að koma fram að sveitarstjórnum væri heimilt að víkja tímabundið frá tilteknum ákvæðum um samþykktir sveitarstjórna eins og þau eru skilgreind í lögum um sveitarstjórnir. Það vantar miklu skýrari afmörkun á því ef það er það sem hv. þingmaður heldur að þetta frumvarp geri. En það er það ekki. Eins og ég kom inn á áðan þá kemur það skýrt fram í greinargerðinni að hér er verið að tala um sveitarstjórnarlögin. Hér er ekki verið að tala um samþykktir sveitarstjórna. Hér erum við að tala um sveitarstjórnarlögin í heild og hvernig þau eru notuð til að stýra sveitarfélögunum. Það er ýmislegt sem fellur þar undir, virðulegi forseti. Og það má ekki gefa sér að engin hætta sé á því, þó að svo sé ekki endilega núna með núverandi hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og alla meiri hluta í sveitarstjórnum landsins, að grafið sé undan aðkomu minni hluta í sveitarstjórnum í neyðarástandi, að lokað verði fyrir kosningar til sveitarstjórna, að þeir sem rétt séu kjörnir í sveitarstjórnir fái ekki að taka þátt, að fjöldi sveitarstjórnarfulltrúa væri allt í einu þurrkaðir út. Allt þetta er á borðinu í frumvarpinu.

Við óskum eftir því að þingheimur vandi sig þegar kemur að viðbrögðum við neyðarástandi og tryggi það að við setjum ekki lög til framtíðar sem geta haft afgerandi eyðileggjandi áhrif á lýðræðið í landinu. Það er það sem við erum að biðja um. Við viljum alls ekki standa í vegi fyrir nauðsynlegum og mikilvægum aðgerðum til að tryggja að stjórnvöld geti starfað áfram, langt í frá. Við erum bara að óska eftir því að það verði vandað til verka og lýðræðið okkar fái að njóta vafans, líka þegar mikið liggur við.