150. löggjafarþing — 73. fundur,  13. mars 2020.

staðgreiðsla opinberra gjalda og tryggingagjald.

659. mál
[11:28]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og ég er alveg hjartanlega sammála. Þetta er fordæmalaus staða, það er mikil óvissa. Ég get ekki frekar en nokkur annar, ekki frekar en hæstv. ráðherra, sagt nokkuð til um það hversu mikið högg og langvarandi högg þetta verður. En við vitum að það verður allnokkuð til skemmri tíma. Þess vegna hvet ég til þess að við séum ekki að horfa til 1 eða 2% lækkunar á tryggingagjaldi til að byrja með heldur frekar á fullt afnám á tryggingagjaldi í einn til þrjá mánuði eða eitthvað þess háttar. Við komum með afgerandi aðgerðir sem hafi áhrif til skemmri tíma litið meðan óvissan er mest af því að það er alveg ljóst að við erum að taka á okkur mjög mikið högg. Það er verið að boða til samkomubanns á sama tíma og við erum að ræða þetta mál. Það er auðvitað viðbótarhögg á allt atvinnulífið.

Ég er alveg sammála því sem kom fram í framsögu hæstv. ráðherra að við verðum líka að gæta okkar á því að það er kannski einfalt að undanskilja ákveðna hluti eins og fjármálakerfið eða eitthvað þess háttar frá aðgerðum eins og niðurfellingu tryggingagjalds, en það er mjög erfitt að afmarka hvar áhrifunum sleppir (Forseti hringir.) þegar kemur að einstökum fyrirtækjum. Ég minni líka enn og aftur á, eins og kom fram í máli hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur, (Forseti hringir.) að við gleymum ekki einyrkjunum sem gjarnan eru réttlausir í þessari stöðu. Það þarf að huga að aðgerðum fyrir þá líka.