150. löggjafarþing — 73. fundur,  13. mars 2020.

staðgreiðsla opinberra gjalda og tryggingagjald.

659. mál
[11:30]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra framsöguna. Ég vil taka fram í byrjun að við í Miðflokknum styðjum þetta mál og þetta er ágæt fyrsta varða, ef svo má segja. Málið ber þess auðvitað merki að þetta er tímabundin aðgerð en jafnframt er því flaggað á sama tíma að næstu dagar og vikur verði notuð til að ramma inn yfirgripsmeiri lausn hvað varðar þetta sérstaka atriði og aðra mögulega gjaldafrestun og frestun á greiðslu skatta.

Það kom fram undir lok framsögu hæstv. fjármálaráðherra að svigrúm ríkisins til að stíga inn væri takmarkað í heild. Þetta er í mínum huga þríþætt. Í fyrsta lagi eru aðgerðir sem kosta ríkið lítið, eins og núna er greiðslufrestur á tekjum sem skila sér væntanlega inn að fullu og í öðru lagi lífeyrissparnaðurinn, séreignin og fleira slíkt og hin raunverulega eftirgjöf skatta og gjalda sem verður skilin eftir til lengri tíma úti í atvinnulífinu. Þriðja atriðið er auðvitað innspýtingin, fjárfestingarhlutinn, sem hefur verið flaggað að verði kynnt fyrir lok mánaðarins og er nauðsynleg til að taka á undirliggjandi kólnun hagkerfisins sem er búin að vera í gangi frá því löngu áður en að kórónuveiran lét kræla á sér.

Það sem mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra er hvort nú þegar liggi fyrir mat innan ríkisstjórnarinnar eða í fjármálaráðuneytinu hver heildarmyndin sé, sem sagt varanleg og raunveruleg eftirgjöf, ekki frestun gjalda. Hvað telur ráðherrann að ríkissjóður geti með góðu móti ráðstafað til þess að skilja eftir varanlegt súrefni, ef svo má segja, úti í atvinnulífinu?