150. löggjafarþing — 73. fundur,  13. mars 2020.

staðgreiðsla opinberra gjalda og tryggingagjald.

659. mál
[11:44]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og ég tek undir með honum um það að auðvitað skiptir það máli að fella niður gistináttagjaldið og ríkissjóður verður þarna af tekjum, u.þ.b. 1 milljarði eins og hæstv. ráðherra nefndi, en eins og hann nefndi réttilega er gjald ekki greitt af tómum herbergjum. Þetta er eitt af því sem við er að etja í þessu máli, aðgerðirnar verða að vera markvissar og það sem skiptir mestu máli er að reyna að lágmarka tjónið og reyna að koma í veg fyrir að hér verði algjört hrun í ferðaþjónustunni. Þá skiptir verulegu máli að reyna að fá hingað ferðamenn. Þrátt fyrir að aðstæður séu með þessum hætti eru einhverjir ferðamenn að koma til landsins og frá Evrópu og það skiptir okkur verulegu máli. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt í mínum huga að leysa þetta mál gagnvart Bandaríkjunum. Ég fagna því eins og hæstv. ráðherra segir hér, að utanríkisráðherra komi til með að hitta utanríkisráðherra Bandaríkjanna, vonandi í næstu viku. Það er gríðarlega mikilvægur fundur.

Ég segi fyrir mitt leyti, herra forseti, ég held að innlegg okkar í þær viðræður verði náttúrlega að vera á þann veg að það sé fullkomlega skiljanlegt af hálfu Bandaríkjanna hversu tjónið er gríðarlegt og þeir sem vinaþjóð okkar verða að horfa til þess. Í þeim efnum tel ég rétt að utanríkisráðherra endurskoði þá ákvörðun sína að falla frá þessari samningsbundnu, ég ítreka samningsbundnu, heræfingu. Gleymum því ekki, herra forseti, að það er jú verið að æfa varnir Íslands. Það er búið að undirbúa þessa æfingu í mjög langan tíma og þetta er að mínu viti liður í því að leysa þessa deilu og koma okkur af þessum lista þannig að ég vona að sá fundur verði árangursríkur.