150. löggjafarþing — 73. fundur,  13. mars 2020.

staðgreiðsla opinberra gjalda og tryggingagjald.

659. mál
[11:46]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna og frumvarp þetta sem við erum með í höndunum. Það er gott að málið sé komið til okkar því að það er mjög brýnt að bregðast hratt og örugglega við þeim aðstæðum sem eru uppi í samfélaginu. Það má hins vegar ekki gleymast þó að við horfum sérstaklega mikið á ferðaþjónustuna, og eðlilega, í umhverfinu sem er akkúrat núna að vandinn er stærri, hann er lengri, eldri og viðameiri. Hann nær alveg frá því að hér brestur á með óveðri, hér verður loðnubrestur, það er kólnun í hagkerfinu. Allt spilar þetta saman og á þátt í því að aðstæður á Íslandi eru ekki sérstaklega góðar eins og staðan er akkúrat núna. Auðvitað er vandinn einna mestur hjá þeim sem eru fremstir í flokki í ferðaþjónustunni í dag, það er alveg augljóst. En áhrifin munu hins vegar hríslast niður allt samfélagið og ná til allra atvinnugreina vegna þess að það eru svo margir aðilar sem tengjast þessari atvinnugrein. Við getum rætt t.d. þá sem selja ferðamönnum einhvers konar ferðir og fara með fólk upp á jökla eða leiðsögumenn sem bjóða upp á gönguferðir o.s.frv. Það hefur í raun áhrif á allt samfélagið þegar svona kemur upp.

Mig langar líka að nefna veitingahúsin sem mörg hver lifa af því að selja ferðamönnum veitingar. Samdrátturinn þar mun án efa koma við t.d. bændur sem hafa verið að framleiða vörur og sumir hverjir sérstaklega inn á ákveðin veitingahús. Samdrátturinn mun koma illa við þessa stétt og ég hvet til þess að það verði skoðað. Samdrátturinn mun að sjálfsögðu líka á einhverjum tímapunkti geta haft áhrif á heimilin og er mjög mikilvægt að vera þá á tánum með það hvernig við getum brugðist við því, t.d. með því að tryggja það eins mikið og mögulegt er að vaxtalækkanir skili sér til heimilanna.

Mig langar einnig að nefna hvort ástæða sé til þess að hvetja aðila vinnumarkaðarins til að setjast niður og velta því fyrir sér hvort það þjóni e.t.v. hagsmunum allra, bæði launþega og atvinnurekenda, að umsamdar launahækkanir frestist eitthvað örlítið. Ég er ekki að leggja til að þær verði afnumdar eða neitt slíkt, að menn gangi á bak samningum eða semji upp á nýtt, heldur að benda á að það kunni að þjóna báðum aðilum að þetta frestist. Ef menn meta að svo sé ekki þá er það bara þannig

Ég held hins vegar, virðulegur forseti, að það sé mjög mikilvægt núna að menn taki fleiri ákvarðanir en færri og að þeir taki þær hratt og örugglega af því að það er betra en að draga þær. Það er betra að vinda ofan af þeim, betra að leiðrétta það sem tekin er ákvörðun um en að taka ekki ákvarðanir. Það skiptir mestu máli núna að ríkisstjórnin, stjórnvöld, Alþingi, komi skýrt fram, komi öflug fram og taki ákvarðanir sem lina þetta áfall sem við erum að verða fyrir mjög snögglega. Það er þá hægt að vinda ofan af því.

Það er eitt sem ekki má gleyma, sem ég veit að hæstv. fjármálaráðherra er vel meðvitaður um, og það er að þessi veira mun örugglega ganga yfir á ákveðnum tíma, á kannski tveimur, þremur, fjórum mánuðum. En áhrifanna á samfélagið mun gæta miklu lengur. Áhrifanna á fyrirtækin og atvinnulífið mun gæta miklu lengur en akkúrat þann tíma sem veiran gengur yfir. Það er það sem við þurfum að búa okkur undir. Við þurfum langtímalausnir. Eitt af því getur verið að lækka varanlega skatta sem eru lagðir á fyrirtækin, að boða það að mjög fljótlega munum við afnema eða lækka verulega skatta á fyrirtæki þannig að þau geti horft til lengri tíma með rekstur sinn. Ég tek það fram að þótt það sé jákvætt skref að ríkisstjórnin komi fram með þessar tillögur, og þetta eru fyrstu skref að okkur skilst, er nauðsynlegt að við bregðumst við til lengri tíma, þannig að það sé sagt.

Ég ítreka að lokum, af því að ég veit að þetta mál þarf að komast til nefndar, við þurfum að fjalla um það og afgreiða hér í dag, til þess er leikurinn gerður, að Miðflokkurinn er að sjálfsögðu reiðubúinn til að hlusta á allar góðar hugmyndir og er tilbúinn til að koma með góðar hugmyndir að borðinu og vinna að þeim ef það má verða til þess að flýta málum svo að hægt verði að taka góðar ákvarðanir hratt og örugglega.