150. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2020.

staðgreiðsla opinberra gjalda og tryggingagjald.

659. mál
[14:31]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til að fagna því sérstaklega sem hv. þm. Óli Björn Kárason sagði áðan. Hann sagði nákvæmlega það sem við í Viðreisn lögðum áherslu á á formannafundinum í gær, að það yrði virkt og öflugt samband við þingið. Við eigum öfluga einstaklinga innan bæði efnahags- og viðskiptanefndar og fjárlaganefndar sem eiga að vera bæði stuðningur við ríkisstjórnina, ráðgjafi hennar og samtalsaðili. Ég fagna sérstaklega þessum orðum formanns nefndarinnar af því að ég tel þau mikilvæg.

Ég verð að segja í fyllstu einlægni, herra forseti, að ég hef óttast að allt þetta tal ríkisstjórnarinnar væri innihaldslaust þus. Það sem af er þessu kjörtímabili höfum við ekki haft góða reynslu af því að efla þingið, efla samtalið, efla þingsköpin og samstarf þings og löggjafarvaldsins annars vegar og framkvæmdarvaldsins hins vegar. Það hefur ekki verið fram til þessa og þess vegna skiptir máli að við höldum áfram þannig á spilunum að við vinnum saman í þessu, að við stöndum saman, því að það er auðvelt að fara aðrar leiðir. Við erum með 360.000 veirusérfræðinga í landinu þessa dagana. Ég undirstrika það að í dag styðjum við að sjálfsögðu og hlustum á það sem okkar góða þríeyki segir, Alma, Þórólfur og Víðir.

Ég fagna þessu en fyrst ég er komin hingað upp langar mig að spyrja hv. þingmann eins af því að ég er ekki í nefndinni. Hv. þingmaður segir: Mikilvægt er að fylgja þessari leið eftir til að tryggja tilgang frumvarpsins. Telur hann að hægt hefði verið að fara fleiri leiðir við þessa útfærslu til þess að tryggja ekki bara stóru fyrirtækjunum ákveðið svigrúm heldur ekki síður (Forseti hringir.) litlu og meðalstóru fyrirtækjunum?

(Forseti (SJS): Forseti leyfir sér að segja að hann lítur svo á að allir hv. þingmenn séu öflugir, ekki bara nefndarmenn í efnahags- og viðskiptanefnd.) (Gripið fram í: Heyr, heyr.)