150. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2020.

staðgreiðsla opinberra gjalda og tryggingagjald.

659. mál
[14:33]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég skildi hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur þannig að við værum töluvert öflugri í efnahags- og viðskiptanefnd en kannski aðrir. En látum það liggja á milli hluta. (Gripið fram í: Þetta er nú bara fundarstjórn.) [Hlátur í þingsal.] Þegar við erum að glíma við vanda, sem ég held að við séum öll sannfærð um eða vonumst til að sé tímabundinn, reynir á að við getum unnið saman. Ég hygg að það sé farsælast til niðurstöðu ef við náum að sameinast en það kallar líka á að við berum gæfu til að fara ekki á uppboðsmarkað, að við séum ekki í kapphlaupi hvert við annað að bjóða betur. Það á við um ríkisstjórnarflokkana og það á líka við um stjórnarandstöðuna. Freistnivandinn fyrir okkur, bæði í ríkisstjórn og stjórnarandstöðu, er til staðar. Þess vegna skiptir máli að við vöndum okkur og náum eins góðri samstöðu og hægt er.

Spurt er hvort einhverjar aðrar leiðir hafi komið til umræðu. Já, það var tekist á um það í nefndinni. Ég taldi ekki hægt með þeim tímaramma og þeirri tímapressu að gera annað en að fara fram með frumvarpið með þeim hætti sem ber hér að með mjög skömmum fyrirvara, eins og allir þingmenn vita. Við þurfum að afgreiða þetta mál hér í dag og gera að lögum. Ég vonast til þess að við getum það þó að það sé núningur og þótt menn geti haft mismunandi skoðanir. Sjálfur hefði ég kannski farið örlítið aðra leið, ég ætla ekki að rekja það, en ég sætti mig við þessa leið. Ég hygg að þegar Samtök atvinnulífsins segja að þetta sé gott fyrsta skref og ríkisskattstjóri segir að þetta gangi upp og (Forseti hringir.) að svona sé best að gera þetta sé skynsamlegt að halda áfram. Við erum að búa til svigrúm til að takast á við vandann til framtíðar.