150. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2020.

staðgreiðsla opinberra gjalda og tryggingagjald.

659. mál
[14:38]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé akkúrat rétt sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði, það er nefnilega freistnivandi hjá báðum. Ég hygg að ég hafi sagt að það sé freistnivandi hjá okkur sem erum í ríkisstjórn og líka hjá stjórnarandstöðunni að fara á einhvers konar uppboðsmarkað. Ég vara við því. Ég tek undir með hv. þingmanni, ef við berum gæfu til að vinna dálítið þétt saman og taka höndum saman mun okkur takast að leysa það verkefni sem við þurfum að leysa. Það breytir ekki því að við eigum eftir að takast á um ýmislegt. Við verðum örugglega ekki sammála um allar þær aðgerðir sem grípa þarf til. Það er eðlilegt að við tökumst á, en við getum engu að síður unnið saman og komist vonandi að sameiginlegri niðurstöðu í sem flestum málum. Sum þeirra verða mjög erfið, það þarf að taka erfiðar ákvarðanir og þá reynir á að við höfum kjark, þor og pólitískt bein til að taka þær ákvarðanir.