150. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2020.

staðgreiðsla opinberra gjalda og tryggingagjald.

659. mál
[15:00]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á að taka undir með samflokkskonu minni, hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur, þar sem hún gerði grein fyrir okkar sjónarmiðum. Þau verkefni sem við teljum að þurfi að fara í eru ekki tæmandi en þau gefa vísbendingu um að við erum tilbúin með hugmyndir og lausnir og leggjum áherslu á hvert sjónum verður beint þegar aðgerðirnar verða tilkynntar og samþykktar. Ég vil líka taka undir með öðrum þeim þingmönnum sem hér hafa rætt um mikilvægi samráðs. Þeir flokkar sem sitja í stjórnarandstöðu hafa á bak við sig tæplega helming kjósenda og í lýðræðissamfélagi eins og við þekkjum það hefur minni hlutinn líka sín áhrif. Við höfum í sjálfu sér fengið góð loforð frá formönnum ríkisstjórnarflokkanna fyrir því að það verði gert. Við verðum að sjá um að því verði fylgt eftir af heilum hug og það er rétt sem kom fram í máli hv. þm. Þorsteins Víglundssonar, þá verður það líka að vera með þeim hætti að það virki ekki eins og upplýsingaskylda heldur gefist nægt ráðrúm til að fjalla um og varpa mismunandi ljósi á þær tillögur sem vissulega koma oftast þá frá ríkisstjórninni.

Hv. þm. Þorsteinn Víglundsson vitnaði til orða hæstv. fjármálaráðherra um að nú dugi kannski að gera meira en minna. Að vissu leyti getur það verið rétt en að öðru leyti lýsir það því hversu viðkvæm staðan er vegna þess að við höfum heldur ekki ótæmandi sjóði og þurfum þess vegna að passa okkur á að þær aðgerðir sem ráðist verður í verði markvissar og beinist að þeim og til þeirra sem þurfa virkilega á þeim að halda. Ég er ekki viss um að öll fyrirtæki í landinu, risafyrirtæki okkar í sumum atvinnugreinum, þurfi kannski jafn nauðsynlega á því að halda að fá afslátt af tryggingagjöldum og lítil og meðalstór fyrirtæki þurfa vissulega.

Ég þekki líka ágætlega, eins og hv. þingmaður, að reka fyrirtæki sem var lítið í viðkvæmum geira í gegnum hrun þannig að ég þekki að þá þarf að grípa með máttugum hætti inn í. Þess vegna styð ég þetta frumvarp, það er einungis frestur í nokkra daga til að koma með heildstæðari, betri og markvissari lausnir sem við þurfum helst að koma öll að. Þetta frumvarp er ekkert ósvipað því og að við sendum Vegagerðina út á land til að ryðja veg og í stað þess að ýta snjónum út af veginum ýtti hún skaflinum á undan sér. Það getur verið nauðsynlegt til að komast yfir eina heiði en eftir mánuð bíður okkar þessi skafl sem hefur stækkað vegna þess að þeim áhrifum mun fjölga sem þetta efnahagshögg hefur á okkur.

Á síðustu dögum er mikið búið að tala um áhrifin á ferðaþjónustuna. Við megum ekki gleyma því að ekki er þannig að atvinnugreinar í landinu keyri einhvers konar samhliða brautir og séu ekki tengdar. Höggið sem ferðaþjónustan fær kannski fyrst núna er í veitinga- og þjónustugeiranum og hjá listafólki. Það er mikilvægt að greiða úr aðstæðum þess fólks. Það mun fljótt hafa áhrif á aðrar greinar, smiðir þurfa að mæta upp á hótelin og laga hótelherbergin, þvottahús þurfa að þvo línið, hönnuðir þurfa að halda áfram með verkefni og svo má lengi telja þannig að við erum einfaldlega að glíma við aðstæður þar sem áhrifin munu mjög fljótt ná út í allar greinar atvinnulífsins. Þannig þurfum við að hugsa þetta en við þurfum líka að passa okkur að taka hugmyndina um að gera meira en minna ekki það langt að við sóum fjármunum. Við verðum að beina fjármununum til þeirra hluta sem virkilega þurfa til að koma okkur í gegnum þennan skafl. Þar eigum við ekki síst að tala um það fólk sem hér stendur höllustum fæti, heimilin í landinu sem verða fyrir miklu höggi.

Að því sögðu mun ég ásamt öðrum í stjórnarandstöðunni halda því fast á lofti að við höfum ýmislegt fram að færa. Við getum og viljum vinna með ríkisstjórn að þessu erfiða verkefni en til þess verður ríkisstjórnin að virða loforð sín um að hafa okkur með.