150. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2020.

staðgreiðsla opinberra gjalda og tryggingagjald.

659. mál
[15:08]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við í Viðreisn munum styðja við þetta frumvarp sem er fyrsta skrefið. Það hefði mátt vera meira skýrt og meira afgerandi en er engu að síður mikilvægt fyrsta skref og mikilvæg skilaboð út í samfélagið sem Alþingi er hér að senda. Ef og þegar ríkisstjórnin heldur fleiri blaðamannafundi ítreka ég við forsætisráðherra að sem flest skilaboð verði send öllum héðan úr þessum þingsal í heyranda hljóði, ekki síst til löggjafarsamkomunnar, um að viðhafa ekki bara samráð og samtal og upplýsingagjöf heldur að þær upplýsingar sem eru veittar fólkinu okkar, einstaklingunum, fjölskyldum og ekki síst fyrirtækjum séu skýrar, að svörin séu skýr. Eftir umræðuna um boðað samkomubann í hádeginu eru til að mynda litlu fyrirtækin, einyrkjarnir, listafólkið, sem hefur m.a. atvinnu af því að sýna ekki bara í leikhúsum heldur taka þátt í árshátíðum o.fl., (Forseti hringir.) smiðir o.fl., svolítið í lausu lofti. Ég hvet ríkisstjórnina til að útskýra hvernig á að koma til móts við þessa hópa. Ég bið um skýr svör og afgerandi aðgerðir.