150. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2020.

staðgreiðsla opinberra gjalda og tryggingagjald.

659. mál
[15:14]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Miðflokkurinn styður þetta mál. Það er gott svo langt sem það nær. Það er jákvætt að Samtök atvinnulífsins eru ánægð með frumvarpið. Það kom fram á fundi nefndarinnar áðan. Miðflokkurinn leggur áherslu á að þetta er tímabundin aðgerð þar til að varanlegar aðgerðir liggja fyrir þannig að þetta er gott skref í rétta átt. Við megum hins vegar ekki gleyma því að hafa ber í huga að miðað við óbreytt ástand verður ekkert auðveldara fyrir mörg fyrirtæki að borga mánuði síðar. Það þarf varanlegar aðgerðir og Miðflokkurinn er tilbúinn í allt samstarf í þeim efnum og alla vinnu.

Mikilvægasta verkefni ríkisstjórnarinnar hér og nú hvað efnahagsmálin varðar er hins vegar að koma okkur af bannlista Bandaríkjanna. Þar er hver dagur okkur verulega dýr og það reynir á ríkisstjórnina í þeim efnum, sérstaklega utanríkisráðherra. Ég óska þeim góðs gengis í þeim efnum.