150. löggjafarþing — 76. fundur,  17. mars 2020.

tilkynning.

[13:32]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Á fundi forsætisnefndar í dag var samþykkt að fella niður vinnutengdar ferðir þingmanna og starfsmanna skrifstofunnar til útlanda fram til 30. apríl nk. Á sama tíma falla niður móttökur, fundir og ráðstefnur hérlendis með þátttöku erlendra gesta. Leitast verður við að finna fundum og öðrum viðburðum nýjar tímasetningar eftir því sem kostur er. Á sama tímabili eru enn fremur eindregin tilmæli forsætisnefndar til þingmanna og starfsmanna að ferðast ekki til útlanda í einkaerindum nema um brýn erindi sé að ræða.

Þá samþykkti forsætisnefnd sömuleiðis á fundi sínum í dag reglur um störf og starfshætti forsætisnefndar, en reglurnar eru settar í framhaldi af því að gildissvið upplýsingalaga tekur nú til stjórnsýslu Alþingis.