150. löggjafarþing — 76. fundur,  17. mars 2020.

aðstoð við skjólstæðinga TR.

[14:01]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Eins og ég sagði áðan erum við að setja upp þetta viðbragðsteymi sem ætlunin er að hefjist strax handa á morgun við að fara yfir fjölmörg atriði sem þegar eru byrjuð að koma upp og eru að koma upp daglega í einstaka sveitarfélögum, hjá einstaka hópum, og skipuleggja með hvaða hætti verði brugðist við. Í því sambandi sagði ég líka að við myndum taka til hliðar ákveðið fjármagn til að tryggja að enginn yrði skilinn eftir í þeim áskorunum sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir.

Þannig að svar mitt við þessari fyrirspurn er: Við erum búnir að setja þetta formlega samstarf af stað. Menn munu hefjast handa strax á morgun. Í framhaldinu munu þessar áskoranir verða teknar fyrir. Varðandi það hvernig þær verða leystar þá treysti ég á að allir þeir fjölmörgu aðilar sem munu þarna leggja í púkkið muni komast að því hvaða lausn sé best. Síðan eru sveitarfélögin og ríkisvaldið tilbúin til þess að veita fjármagn ef á þarf að halda og þá í afmörkuð atriði sem ég treysti að komi út úr þessari vinnu. Þetta er eitt þeirra atriða.