150. löggjafarþing — 76. fundur,  17. mars 2020.

frumvörp um atvinnuleysisbætur.

[14:04]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Áður en ég svara henni skulum við átta okkur á tímalínunni sem lá undir í vinnslu þessa máls. Við höfðum gert ráð fyrir því að taka okkur eina til tvær vikur, sem er skammur tími til að smíða lagafrumvörp, en ákváðum á fimmtudagsmorgun þegar ljóst var að búið var að loka Bandaríkjunum fyrir flugi að koma fram með frumvarp strax á föstudeginum. Á einum sólarhring var lokið við smíði þessa frumvarps. Það var lagt fram á þinginu á föstudagskvöld eftir að hafa farið í gegnum ríkisstjórn, þingflokka, undirritun hjá forseta og lagt síðan fram á þingi. Vissulega er þetta ferli, og fyrir því hef ég gert grein og mun gera í ræðu minni á eftir, ekki eðlilegt, þ.e. að frumvörp séu smíðuð á svona skömmum tíma. Við töldum þó mikilvægt að í þessari viku lægi ljóst fyrir að við ætluðum okkur í aðgerðir hvað þetta snerti. Síðan taka mál eðlilega breytingum, hvort sem er í ríkisstjórn eða annars staðar, vegna þess að öll höfum við ólíka sýn á málin. Síðan höfum við verið að ræða það og síðan hefur líka margt gerst á þessum tíma. Síðustu sólarhringa, bara frá því á föstudeginum, hefur mikið verið að gerast. Fréttir hafa m.a. borist frá Evrópu þar sem er verið að loka hverju landinu á fætur öðru þannig að það er alveg ljóst að við munum þurfa að víkka þetta meira út en við höfum verið að boða. Fjármálaráðherra kom inn á það hérna í óundirbúnum fyrirspurnum áðan. Það er alveg ljóst að við erum að hefja undirbúning við það og ég held að það sé bara mjög gott að geta tekið þá umræðu í málinu á eftir.

Ég sagði líka í óformlegri kynningu minni fyrir velferðarnefnd í gær að þegar við vinnum mál með slíkum hraða er alveg ljóst að það verður að fá alla með í það að rýna málin, sjá hverju við getum breytt og hvernig við getum náð utan um sem flesta hópa. Það er verkefnið núna fram undan. Þess vegna er svo mikilvægt (Forseti hringir.) að bæði ríkisstjórnin og þingið séu í takt hvað þetta snertir.