150. löggjafarþing — 76. fundur,  17. mars 2020.

aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna Covid-19.

[14:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á því að við höfum þegar séð viðbrögð frá Seðlabankanum. Við erum þegar búin að fresta gjalddögum opinberra gjalda. Við erum þegar komin með á dagskrá þingsins frumvarp sem mun hjálpa fyrirtækjum að létta af sér launakostnaði og mörgum störfum bjargað. Fyrstu aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru komnar til áhrifa og til umræðu í þinginu. Næstu umfangsmiklu aðgerðir munu m.a. felast í samstarfi við fjármálamarkaðinn og, já, enn frekari aðgerðum sem snúa að greiðslufrestum og beinni aðkomu til að bjarga störfum í landinu.

Menn vísa til þess að aðrar ríkisstjórnir hafi stigið fram. Ég leyfi mér að benda t.d. á að í Noregi koma menn og segja: Ef fyrirtæki hefur tapað 50% af veltu sinni fær það lán á vildarkjörum, þ.e. lán með ríkisábyrgð í gegnum fjármálakerfið. Það er þá um leið yfirlýsing um að fyrirtæki sem hefur tapað 49% af veltu fái ekki slíkan stuðning. Öll útfærsla á þeirri hugmynd væri eftir þó að blaðamannafundurinn hefði átt sér stað. Það er ekki alltaf allt fengið með því að halda blaðamannafundi (Forseti hringir.) og vera með breiðar línur. Ég held að við séum bara komin mjög langt með að undirbúa aðgerðir sem verða kynntar og muni skipta máli og komi tímanlega fram.