150. löggjafarþing — 76. fundur,  17. mars 2020.

tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví.

667. mál
[16:13]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, þegar barn er skikkað til að fara í sóttkví af sóttvarnalækni eru það tilmæli til þess einstaklings að hann eigi að halda sig inni í 14 daga, tilmæli sem hann má ekki brjóta vegna þess að honum er skipað að halda sig inni. Við þær kringumstæður þarf að vera skýrt að foreldri viðkomandi barns geti verið með því í sóttkví. Þegar um samkomubann er að ræða ber okkur sem samfélagi, þeim tveimur stjórnsýslustigum sem eru í landinu, annars vegar ríki og hins vegar sveitarfélögum, að halda úti nauðsynlegri og lögbundinni þjónustu. Við sjáum að skólarnir eru að fara af stað í dag og við erum að fá fréttir af því að það sé með misjöfnum hætti — en það er lögboðin þjónusta. Menn eru að laga sig að þeim breyttu aðstæðum sem samkomubannið felur í sér. Félagsþjónustan og stuðningur við viðkvæma hópa þarf að fara í gegnum nákvæmlega sömu vinnu og skólakerfið er að gera og það er það sem við, félagsmálaráðuneytið, sveitarstjórnarráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga, sameinuðumst um í samstarfi við almannavarnir í morgun að tryggja, þ.e. hvernig við ætlum við þær aðstæður sem samkomubannið er að tryggja lögboðna þjónustu.

Þetta frumvarp hér lýtur einvörðungu að því að tryggja greiðslur til þeirra sem ekki geta sinnt vinnu sinni vegna þess að þeir hafi verið skikkaðir í sóttkví af sóttvarnalækni og heilbrigðisyfirvöldum.