150. löggjafarþing — 78. fundur,  17. mars 2020.

félagslegur viðbótarstuðningur við aldraða.

666. mál
[17:12]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Þetta verður ekki löng ræða. Ég vil fyrst og fremst taka til máls til að fagna því að hæstv. ráðherra hafi komið fram með þetta mál. Ég tel afar mikilvægt að við tökum utan um þennan hóp eins og raunar hefur komið fram í máli fleiri þingmanna, nú síðast hv. þm. Guðmundar Inga Kristinssonar. Eins og hæstv. ráðherra kom inn á liggur til grundvallar skýrsla starfshóps sem fór yfir hvar veikustu hlekkirnir í velferðarnetinu væru. Hvað varðar hóp eldra fólks er það þessi hópur og það er mikilvægt að við sem samfélag tökum utan um hann. Ég fagna því þessu máli og hlakka til að takast á við það í hv. velferðarnefnd.