150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

verðtryggð lán heimilanna.

[11:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að verkefnið sem við okkur blasir snýst ekki um kennitölur fyrirtækja heldur um fólk og á endanum snýst þetta þess vegna allt um heimilin og lífskjör fólks sem býr í þessu landi. Hins vegar er alveg augljóst að í einkageiranum á Íslandi er að verða hrikalegt tekjufall og að fólk sem starfar í einkageiranum á Íslandi stendur frammi fyrir miklu meiri ógn af atvinnuleysi en t.d. fólk sem starfar í opinbera geiranum.

Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að það er eðlilegt að fólk spyrji um húsnæðisöryggi, verðbólgu og slíka þætti. Ég hef bara þau svör núna að við sjáum ekki fram á það á þessari stundu að okkur standi mikil ógn af verðbólgunni. Það er ekki gert ráð fyrir neinni óðaverðbólgu vegna gengisfalls eða hækkunar á erlendum mörkuðum. Sumt spilar reyndar með okkur gegn verðbólgu, t.d. mikil lækkun á olíuverði. Nú er lægsta verð á olíu í mjög langan tíma og heimilin standa nokkuð sterkt. Fyrstu aðgerðir okkar sem hafa þegar birst hafa einmitt miðað að því að verja þessa stöðu heimilanna, að fólk geti t.d. haldið launum sem mest þrátt fyrir að hafa farið í lægra starfshlutfall. Um það snýst málið sem við höfum verið að vinna að undanfarna daga á þinginu.

Að lokum minni ég bara á að Seðlabankinn vinnur samkvæmt verðbólgumarkmiði. Það hefur ekki verið aftengt. Áfram er verðbólgumarkmið í gildi og Seðlabankinn mun þá væntanlega beita sér með þeim stjórntækjum sem hann hefur. Við þurfum að styðja Seðlabankann í okkar aðgerðum til að ná því markmiði.

Allra síðast ætla ég að vekja athygli á því hversu hátt hlutfall landsmanna hefur tekið óverðtryggð lán þannig að ef sú hætta raungerist (Forseti hringir.) sem hv. þingmaður talar um er ekki síður ástæða til að horfa til þess fólks.