150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

kjarasamningar við hjúkrunarfræðinga.

[11:32]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er einfaldlega ekki með nákvæma tölu til að tjá mig um það hvað það myndi kosta að ganga að kröfum hjúkrunarfræðinga. En ég bendi á það að við höfum verið að semja við aðrar heilbrigðisstéttir eins og sjúkraliða. Við höfum verið að gera grundvallarbreytingar á vinnufyrirkomulagi í vöktum. Vaktavinnufyrirkomulagið hefur í nýlegum samningum tekið miklum breytingum og sambærilegir hlutir eru til umræðu við hjúkrunarfræðinga. (JÞÓ: Ætlarðu ekkert að gera …?) Stytting vinnuvikunnar er eitt af áherslumálum flestra opinberra stétta. Og ef heimurinn væri nú bara svona einfaldur, eins og hv. þingmaður segir, að hægt væri að vísa í ástandið og segja: Nú ætlum við að taka einn hóp út fyrir, þá væri kannski ágætisbyrjun að allar hinar stéttirnar sem ætluðu ekki að gera kröfu til þess að njóta góðs af því sem aðrir hafa fengið umfram þær, byrjuðu á því að lýsa því yfir og lofa samninganefnd ríkisins að ekki verði vísað í aðra samninga. (JÞÓ: Lýst þú því yfir.) Það hefur aldrei gerst. Það er bara veruleiki þessara mála að menn semja hver fyrir sig.