150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

664. mál
[15:05]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að við séum að ljúka þessu gríðarlega mikilvæga máli hér. Við erum að tryggja afkomu fólks og fyrirtækja á sama tíma sem þau eru að ganga í gegnum þrengingar. Við erum sannfærð um að þetta úrræði muni nýtast fjölmörgum enda gerum við ráð fyrir því að þær breytingar sem hafa verið gerðar á frumvarpinu, m.a. í samstarfi við velferðarnefnd, útvíkki það mjög mikið. Það nær til mun stærri hóps en það gerði í upphafi, enda er sú áskorun sem við erum að glíma við sem samfélag miklu stærri en okkur óraði fyrir. Með þessari hugsun erum við sannfærð um að við komumst saman í gegnum þetta og ég hvet bæði fyrirtæki og launafólk til að nýta sér þetta úrræði.