150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

664. mál
[15:06]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Fyrir hönd þingflokks Miðflokksins vil ég koma þeim sjónarmiðum á framfæri hér að það er ánægjulegt að þetta mál gangi svo hratt í gegnum þingið og með þeim breytingum sem voru gerðar til bóta í velferðarnefnd. Ég vil þó halda til haga við þessa umræðu tveimur atriðum. Í fyrsta lagi teljum við í Miðflokknum að skynsamlegt hefði verið að hækka þakið meira en raunin varð. Heildargreiðslur eru hækkaðar úr 650.000 í 700.000. Við teljum að það hefði verið skynsamlegt að ganga hið minnsta upp að 950.000 kr. sem hefði verið vísitölubæting á tölunni frá 2009.

Síðan kom inn rétt áðan til allra þingmanna póstur frá forseta Alþýðusambands Íslands sem ég held að sé nauðsynlegt að velferðarnefnd taki til skoðunar við fyrsta tækifæri með það fyrir augum hvort nauðsyn verði á einhvers lags lagfæringu sem snýr að stöðu fiskverkafólks.

Að öðru leyti lýsi ég yfir ánægju minni með að málið sé að ganga hér í gegn með þessum hætti.