150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

664. mál
[15:10]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Ég vildi nefna að miklar breytingar hafa verið gerðar á frumvarpinu. Að mestu leyti var brugðist við ábendingum sem við Píratar komum með en þó vil ég nefna að það er fámennur hópur sem er núna með undir 45% vinnuhlutfall og svo virðist sem sá hópur verði ekki dekkaður. Það þarf að minnka starfshlutfallið um 20% og svo mega menn ekki vera undir 25% hlutfalli til að fá þennan stuðning. Þetta verður að vera alveg skýrt. Launamaður les kannski að hann megi ekki vera undir 25% en hann má ekki hafa lækkað. Sá sem lækkar verður að lækka um 20% að lágmarki.

Við bentum á þetta en við því var ekki brugðist þó að brugðist hafi verið við því að færa hlutfallið úr 50 niður í 25 sem þýddi að eins og það var hefði viðkomandi þurft að vera í 70% starfi eða meira til að geta nýtt þetta. Nú er það 45% eða meira. Það var sagt að þarna undir féllu mjög fáir aðilar en þá má spyrja: Hvers vegna ekki þá bara að fjarlægja þessi 25% eða þessa 20% reglu þannig að þetta nái til allra (Forseti hringir.) þó að þeir séu í lægra hlutastarfi en 45%? Annars er margt gott í þessu frumvarpi.