150. löggjafarþing — 81. fundur,  23. mars 2020.

aðstoð við fyrirtæki.

[10:33]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Herra forseti. Vissulega eru mjög óvenjulegir tímar hér á landi og um heim allan. Um allan heim er verið að grípa til aðgerða sem ekki hafa sést áður eða í það minnsta er langt síðan þær hafa sést. Við verðum öll vör við það ástand sem nú ríkir með einum eða öðrum hætti. Við sjáum á okkar vinnustað, Alþingi, hvernig hlutirnir eru en úti í samfélaginu eru tugþúsundir einstaklinga sem hafa verulegar áhyggjur af framtíðinni, af því hvað koma skal og hvað hægt er að gera til að lifa af næstu mánuði og misseri. Ríkisstjórnin hefur kynnt ákveðnar tillögur og fagna ég þeim. Ég vil hrósa fjármálaráðherra fyrir að koma fram með þær. Við erum hins vegar ekki alveg sammála um að þetta sé rétt aðferðafræði eða nógu langt gengið. Það er nokkuð sem við hljótum að taka umræðu um í þingsal eða í nefndum eftir því hvernig hlutirnir þróast.

Nú eru mögulega fjölmörg fyrirtæki, sérstaklega í ferðaþjónustu, sem hafa engar tekjur. Núna er engin innkoma og verður engin innkoma næstu mánuðina. Hvernig eiga þessir aðilar að fara að ef þeir eiga að borga 25% af launum til að halda starfsmönnum ef þeir hafa enga innkomu? Þeir hafa skuldbindingar og fjárfestingar en ekkert kemur í kassann. Ég get ekki séð að þessi fyrirtæki geti í raun gengið inn í það fyrirkomulag sem þarna var sett af stað.

Mig langar líka að heyra ráðherra útskýra fyrir mér hvernig hægt sé að rökstyðja og treysta fjármálastofnunum, bönkunum, fyrir því að velja úr hvaða fyrirtækjum á að hjálpa og hverjum ekki. Eins og ég skil þessar tillögur munu fjármálastofnanir, bankarnir, velja úr þá sem fá aðstoð. Verður það þannig að þeir sem ekki fá aðstoð en telja sig vera með góð fyrirtæki geti leitað eitthvað annað og fengið álit einhvers annars á stöðu sinni?