150. löggjafarþing — 81. fundur,  23. mars 2020.

vandræði ferðaþjónustunnar.

[10:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög mikilvægt atriði sem hv. þingmaður kemur inn á sem tengist heilbrigðiskerfinu. Við erum að boða það í þessum fjárauka að annar fjárauki muni koma síðar á árinu til að sækja heimildir fyrir margt sem er fyrirséð á útgjaldahliðinni í dag en var það ekki þegar fjárlög voru samþykkt. Þar er heilbrigðisþjónustan augljóslega efst á blaði. Við höfum almennan varasjóð til að sækja í og eins og sakir standa teljum við að við séum ekki á leiðinni inn í neinn bráðavanda varðandi þetta og að nýr fjárauki muni koma að gagni.

Að öðru leyti varðandi fyrirtækin er auðvitað margt sem kemur til greina sem við þurfum að stíga frekari skref í. Við getum séð fyrir okkur ýmiss konar aðgerðir til að styðja enn frekar við fyrirtækin ef við teljum þess þörf; endurgreiðslu skatta, niðurfellingar skatta, tímabundið eða jafnvel varanlega, afskriftir skulda í bankakerfinu. Allt eru þetta augljósar aðgerðir sem getur þurft að grípa til ef ganga þarf lengra þannig að við sitjum ekki eftir krísuna uppi með ofskuldsett fyrirtæki sem geta sig hvergi hreyft, fjárfest, ráðið til sín fólk og látið til sín taka. (Forseti hringir.) Við þurfum að koma aftur sem fyrst á eðlilegu ástandi.