150. löggjafarþing — 81. fundur,  23. mars 2020.

verðtrygging lána.

[10:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr hér um verðtrygginguna og lýsir áhyggjum af þróun hennar. Enn sem komið er er ekki hægt að lesa út úr viðbrögðum markaðsaðila annað en að markaðurinn geri ekki ráð fyrir miklu verðbólguskoti. Ég vek athygli á því að eftir yfirlýsingu Seðlabankans frá því í morgun hafa vextir á verðtryggðum lánum fallið niður í 0%, ekki bara til skamms tíma heldur allt fram til ársins 2026. Markaðurinn gerir ráð fyrir því að vextir verði lágir, ekki bara á þessu ári heldur mörg næstu ár eftir yfirlýsingar Seðlabankans frá því í morgun. Þetta skiptir miklu þegar spurt er hvernig aðgerðir stjórnvalda geti haft áhrif á hag heimilanna.

Seðlabankinn hefur skyldur að lögum til að halda aftur af verðbólgunni og hann ver trúverðugleika sinn til að sinna því verkefni með þeim tækjum og tólum sem hann hefur. Ég tel ekki tímabært að grípa til sérstakrar lagasetningar vegna verðbólgu og verðtryggingar. Ég tel reyndar að ef við færum út í slíkar aðgerðir mætti efast um traust okkar á því að þessir hlutir verði í lagi.

Ég vek líka athygli á því vegna umræðunnar um verðtryggð lán að hafi menn raunverulegar áhyggjur af því að verðbólga sé á leiðinni ættu menn ekki að gleyma því að ræða um stöðu þeirra sem hafa tekið óverðtryggð lán í stórauknum mæli á undanförnum árum vegna þess að þeirra greiðslubyrði um hver mánaðamót mun hækka miklu meira en hinna sem hafa verðtryggð lán og njóta í raun og veru skjóls af henni. Ég tel að aðgerðir okkar horfi einmitt til fólksins í landinu, ekki bara fyrirtækjanna, af því að hér er rætt um einstaklinga. Að öðru leyti tek ég bara undir með hv. þingmanni þegar hann talar um ýmsar hjálparstofnanir. Við eigum að standa við bakið á þeim.