150. löggjafarþing — 81. fundur,  23. mars 2020.

verðtrygging lána.

[10:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að segja það varðandi gjaldmiðilinn okkar að hann hefur staðið sig vel að undanförnu. Hann hefur gagnast vel. Það er eðlilegt við þessar aðstæður að gengi íslensku krónunnar gefi nokkuð eftir. Við erum hér að ræða um algjört hrun hjá mörgum ferðaþjónustuaðilum, ekki satt? Þegar við horfum aðeins víðar yfir sviðið sjáum við að íslenska krónan er að veikjast t.d. gagnvart bandaríska dollaranum bara u.þ.b. jafn mikið og aðrar smáar myntir eru að gera. Við skulum ekki gleyma því hvaða viðspyrna felst í þessu. Það má leyfa sér að velta upp þeirri spurningu hvort það gæti ekki verið raunin að einstaka ríki myntbandalagsins, evrunnar, myndu gjarnan vilja eiga inni veikingu á borð við þá sem hv. þingmaður er að lýsa áhyggjum af. Ætli Ítalirnir myndu ekki vilja gefa nokkuð fyrir ákveðna veikingu (Forseti hringir.) síns gjaldmiðils um þessar mundir?