150. löggjafarþing — 81. fundur,  23. mars 2020.

vinna nefnda við stjórnarfrumvörp.

[11:02]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Það er óhætt að segja að þetta eru undarlegir tímar sem við erum að fara í gegnum núna. Auðvitað er heilsuváin þar brýnasta viðfangsefnið en það er líka alveg ljóst að þau mál sem við erum að taka hér til umfjöllunar í þinginu í dag munu skipta alveg gríðarlega miklu máli. Það skiptir að mínu viti mjög miklu að innan þings skapist góð samstaða því að þessi mál þarf að vinna hratt og örugglega. Hér þarf að skapast góð samstaða um afgreiðslu þeirra og nauðsynlegar breytingar eða betrumbætur sem á þeim kann að þurfa að gera.

Þetta er ekki tími pólitískra yfirboða en þetta er heldur ekki tími fyrir gagnrýnisleysi eða meðvirkni. Það verður meiri hlutinn sem mun slá tóninn um það hvernig þinginu tekst til við afgreiðslu þessara mála í vikunni og því langar mig að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort ekki sé alveg öruggt að meiri hluti í bæði fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd sé með skýr skilaboð frá ríkisstjórninni og skýrt umboð til að ráðast í þær breytingar sem þarf að gera á þessum málum og til að tryggja gott samstarf í nefndunum, milli minni hluta og meiri hluta. Við þessar kringumstæður er alveg sama hvaðan góðar hugmyndir koma, mestu máli skiptir að nefndirnar nái vel saman um þær breytingar sem þarf að gera og gangi lengra eftir því sem þurfa þykir.

Því vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Er ekki alveg öruggt að þeim málum sem við erum að taka til 1. umr. í dag og afgreiðslu og vinnslu núna í vikunni á leifturhraða fylgi þau skýru skilaboð frá ríkisstjórninni að hér sé umboð til að vinna með þau og líkt og gert var í velferðarnefnd með hlutaatvinnuleysisbætur að betrumbæta eins og þurfa þykir?