150. löggjafarþing — 82. fundur,  23. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[11:44]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að þessar aðgerðir, t.d. um frestun á greiðslum opinberra gjalda og tryggingagjalds og hlutaatvinnuleysisbæturnar, sem þingið hefur nú þegar samþykkt, séu gríðarlega mikilvægar. En þær eru almennar og þær eru tímabundnar. Ég hef áhyggjur af fyrirtækjum sem eru í algjöru frosti og hafa fyrir þennan skell sagt upp fólki og ég hef áhyggjur af sveitarfélögum sem þetta bitnar sérstaklega á. Atvinnuleysisbætur, grunnatvinnuleysisbætur, sem fólk lendir á eftir þriggja mánaða atvinnuleysi eru nú tæpar 290.000 kr. Ef við tökum Reykjanesbæ sérstaklega þá er atvinnuleysið þar komið upp í 11% og atvinnuleysið þar í janúar var þegar orðið mjög hátt. Það eru því mjög margir sem munu fara á grunnatvinnuleysisbætur (Forseti hringir.) 1. apríl. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki standi til að hækka atvinnuleysisbætur a.m.k. að lágmarkslaunum sem nú eru, samkvæmt samningum Eflingar, 335.000 kr.