150. löggjafarþing — 83. fundur,  26. mars 2020.

sérstakt tímabundið fjárfestingarátak.

699. mál
[13:32]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um sérstakt tímabundið fjárfestingarátak. Þetta er ein af þeim efnahagsaðgerðum sem ríkisstjórnin telur nauðsynlegt að ráðast í til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldursins. Fjárfestingarátakið er hluti af fyrstu viðbrögðum ríkisstjórnarinnar til að styðja við efnahagsstarfsemi og fjárfestingar um land allt. Fjárhagsrammi átaksins er ákvarðaður í frumvarpi til fjáraukalaga sem þegar hefur verið mælt fyrir.

Hér er fyrirhugað að ráðast í beinar fjárfestingar á vegum ríkisins fyrir 15 milljarða kr. strax á þessu ári. Þá er einnig gert ráð fyrir því að fyrirtæki í eigu ríkisins ráðist í fjárfestingar eða flýti framkvæmdum til að örva efnahagslífið fyrir allt að 5 milljarða kr. til viðbótar við fjárfestingarátak ríkisins. Alls er því um að ræða opinberar fjárfestingar fyrir 20 milljarða kr. í fjölbreyttum fjárfestingarverkefnum sem munu gagnast samfélaginu öllu.

Ráðstöfun þessi á sér ekki hliðstæðu en til hennar er gripið við þær sérstöku aðstæður sem nú ríkja. Útbreiðsla kórónuveirunnar og ráðstafanir til að hamla útbreiðslu hennar hafa þegar haft mjög mikil áhrif á efnahagslífið og búast má við því að þessi áhrif muni aukast. Núverandi efnahagsástand með hratt minnkandi eftirspurn, efnahagsslaka og lítilli atvinnuvegafjárfestingu kallar á að ráðist verði í auknar fjárfestingar á vegum hins opinbera.

Við mat á fjárfestingarverkefnum þessa átaks var sérstök áhersla lögð á mannaflsfrek verkefni sem hægt væri að ráðast í á þessu ári. Á grundvelli þessa var lagt til að skapaður væri rammi fyrir allt að 15 milljarða kr. til fjárfestingarverkefna auk fjárfestingarfélaga hins opinbera eins og ég hef áður komið inn á. Þessi framlög koma til viðbótar um 74 milljörðum kr. til fjárfestingar sem gert er ráð fyrir í gildandi fjárlögum fyrir árið 2020. Aukningin nemur því u.þ.b. fimmtungi.

Í tillögu þessari er lagt til að Alþingi álykti um nánari sundurliðun á framangreindum heimildum niður á verkefnaflokka og einstök fjárfestingarverkefni. Verkefnaflokkarnir eru eftirtaldir:

1. Aukið viðhald og endurbætur á fasteignum ríkisins. Hér er um að ræða fjölbreytt verkefni sem dreifast víða um landið og verða flest unnin á vegum Ríkiseigna.

2. Nýbyggingar og meiri háttar endurbótaverkefni. Hér eru m.a. undirbúningsverkefni vegna nokkurra bygginga á vegum þriggja ráðuneyta. Verkefnin verða unnin í samvinnu viðkomandi ráðuneyta og Framkvæmdasýslu ríkisins.

3. Samgöngumannvirki. Í þessum flokki eru fjölbreyttar nýframkvæmdir auk viðhaldsverkefna og má segja að þessi verkefni séu um allt land og taki sömuleiðis til allra samgöngugreina, þ.e. vega, flugvalla, hafna og breikkunar brúa.

4. Orkuskipti, grænar lausnir og umhverfismál. Þau verkefni sem hér um ræðir eru á ábyrgðarsviði umhverfis- og auðlindaráðuneytis og endurspegla áherslu á loftslagsmál og uppbyggingu á friðlýstum svæðum.

5. Önnur innviðaverkefni. Meðal verkefna á þeim lista er ýmiss konar mikilvæg styrking innviða sem ætlað er að bæta úr veikleikum sem fram hafa komið í óveðrum undanfarinna mánaða og má vísa til sérstakrar skýrslu sem kom út rétt um mánaðamótin febrúar/mars, seint í febrúar ef ég man rétt. Þar hafði sérstakur starfshópur verið að störfum og kom fram með tillögur. Á þeim lista er t.d. áætlað að hraða framkvæmdum vegna snjóflóðavarna, svo eitt dæmi sé tekið. Jarðstrengir eru annað dæmi.

6. Rannsóknir, nýsköpun og skapandi greinar. Hér er um að ræða framlög sem að mestu munu renna til faglegra sjóða sem veita fjármuni til einstakra verkefna. Þetta teygir sig frá grunnrannsóknum yfir til hagnýtra rannsókna, auk mikilvægra framlaga til skapandi greina.

7. Stafrænt Ísland og upplýsingatækniverkefni. Undir þennan flokk falla fjölbreytt verkefni á sviði nýsköpunar, upplýsingatækni, netöryggis og stafrænnar þjónustu. Má nefna að við erum að vinna að því að flýta 400–500 þjónustuferlum hins opinbera og færa yfir á stafrænt form. Við ætlum sem sagt að stórefla island.is og markmið okkar er að færa Ísland í fremstu röð þjóða í stafrænni opinberri þjónustu. Við erum í þriggja ára verkefni til að ná markmiðum okkar hvað þetta snertir. Það sem við höfum nú þegar eru mjög víðtækar tengingar en það heldur sérstaklega aftur af okkur í samanburði við aðrar þjóðir hvað það skortir á þjónustuna. Hérna er ætlunin að bæta í og hraða þannig innleiðingu þessa verkefnis. Það er áætlað að bara í þessum verkefnum geti orðið til um 140–170 ársverk.

Eins og sjá má af þeim flokkum sem ég hef hér farið yfir er sérstök áhersla lögð á fjölbreytt verkefni. Þau skapa strax ný störf, þvert á samfélagið, og ná m.a. til hefðbundinna iðnstarfa en einnig annarra starfa eins og í þekkingariðnaði. Þá er gert ráð fyrir stuðningi við menningu og íþróttastarf í landinu.

Að mati ríkisstjórnarinnar er mikilvægt að þessi verkefni gagnist til að skapa nýja eftirspurn sem er mikilvægt við þær aðstæður sem hafa skapast. Sú eftirspurn þarf að vera eftir fjölbreyttum tegundum starfa og eins verða menn að gæta að því að tækifæri séu fyrir landsbyggðina eins og höfuðborgarsvæðið, fyrir karla sem og konur. Við munum leggja sérstaka áherslu á að eiga gott samstarf við fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum og í grunninn er verið að styrkja samfélagið til lengri tíma litið.

Það er grundvallarmunurinn á því að fara í fjárfestingarátak eins og þetta sem getur aukið framleiðni og arðbær verkefni og hinu að fjölga einfaldlega störfum hjá hinu opinbera að með því er ekki sama tryggingin fyrir því að við náum að efla okkur sem samfélag. Þessi áform eiga það öll sameiginlegt að það er raunhæft að hrinda þeim í framkvæmd strax á þessu ári.

Ég ætla að lokum að minna á það að um leið og ríkisstjórnin teflir fram þessari sérstöku þingsályktunartillögu samhliða fjáraukalagafrumvarpinu vegna ársins 2020 er, eins og áður hefur verið boðað, unnið að undirbúningi enn stærra fjárfestingarátaks sem ætlunin er að taki til næstu þriggja ára. Við höfum áður komið inn á það. Þar getum við séð fyrir okkur að lagt verði upp með allt að 60 milljarða átak yfir það tímabil. Það væri þá hluti af þeirri fjármálaáætlun sem kemur fyrir þingið á vormánuðum að fara nánar ofan í saumana á þeim verkefnum.

Virðulegi forseti. Ég legg til að þegar við höfum lokið umræðum um fjárfestingarátakið verði málinu vísað til hv. fjárlaganefndar þingsins og síðari umr.