150. löggjafarþing — 83. fundur,  26. mars 2020.

sérstakt tímabundið fjárfestingarátak.

699. mál
[13:57]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna. Auðvitað styðjum við í Viðreisn þá aukningu í þeim opinberu fjárfestingum sem hér er verið að kynna. Það sem mér er hins vegar efst í huga er að það er alveg ljóst að niðursveifla, útbreiðsla og áhrif af Covid-19 hafa reynst töluvert meiri en við gerðum ráð fyrir þegar lagt var af stað með þessi áform. Þetta er viðbótarfjárfesting upp á 15 milljarða og við getum sagt að bein innspýting í þessum fyrsta aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar sé 60 milljarðar, um 2% af landsframleiðslunni. Við erum að horfa hér á niðursveiflu sem gæti hæglega verið 5–8%. Í sjálfu sér er ekki ástæða til að standa í einhverri samkeppni um hver dregur upp dekkstu myndina. Við vonum bara hið besta en gerum auðvitað það sem við getum til að spyrna við fótum.

Innan fjárlaganefndar er töluvert rætt um að bæta verulega í og ég spyr: Kæmi til greina af hálfu hæstv. ráðherra að gera nákvæmlega það, auka verulega í þessa fjárhæð, að í stað 15 milljarða værum við að tala um 25–30 milljarða viðbótarfjárfestingu á þessu ári?