150. löggjafarþing — 83. fundur,  26. mars 2020.

sérstakt tímabundið fjárfestingarátak.

699. mál
[14:00]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Hvað er raunhæft að gera? Það er ágætt að hafa í huga að að jafnaði er fjárfesting í hagkerfinu um 20% af landsframleiðslu, um 600 milljarðar. Ég hygg að sú fjárfesting muni fá mjög mikið högg á þessu ári. Atvinnulífið sem er að fara í gegnum alveg fordæmalausa dýfu mun skera allar fjárfestingar niður sem það mögulega getur. Byggingariðnaður er sagður vera við frostmark við þessar kringumstæður. Það má horfa víðar og sjá augljós merki þess að verulega muni draga saman í fjárfestingum. Þess vegna held ég að við finnum alveg svigrúm fyrir 15 milljarða í viðbót.

Það má nefna sem dæmi að hægur leikur væri að horfa meira í sprotana okkar. Við sjáum a.m.k. lífsmark í þeim. Það væri hægt að hækka endurgreiðslumarkið á rannsókna- og þróunarkostnaði. Það væri hægt að bæta inn í samkeppnissjóðina og annað þess háttar. Þar geri ég ráð fyrir að hægt væri að koma út einhverjum milljörðum. Það væri hægt að spýta strax í framkvæmdir við Landspítala. Ég sakna þess enn og aftur, þrátt fyrir allt tal um annað, að ekki sé nein áhersla á aukna uppbyggingu hjúkrunarrýma sem væri hægt að koma þó nokkrum milljörðum í. Við erum ekki farin að nefna (Forseti hringir.) Reykjanesbraut sem við höfum talað um í 20 ár að ljúka. Ég held að sjaldan væri betra tækifæri til þess en núna. Ég óttast ekki að ekki verði tækifæri til að finna verkefnin, heldur óttast ég að ekki sé vilji hjá meiri hlutanum til að ráðast í þau.