150. löggjafarþing — 83. fundur,  26. mars 2020.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

700. mál
[14:59]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum í tengslum við undanþágur frá CE-merkingum á persónuhlífum. Frumvarpið er lagt fram í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi eru en mikil óvissa ríkir vegna kórónuveirunnar sem veldur Covid-19 sjúkdómnum. Sú óvissa lýtur m.a. að því hvort nægjanlegt framboð verði í Evrópu á þeim tækjum og búnaði sem nauðsynlegur er til að stemma stigu við útbreiðslu sjúkdómsins sem og til að meðhöndla sýkta einstaklinga.

Því þykir nauðsynlegt að tryggja að Vinnueftirlit ríkisins geti heimilað að fenginni rökstuddri beiðni innflutning á persónuhlífum sem ekki eru CE-merktar til að nota hér á landi vegna útbreiðslu Covid-19 sjúkdómsins.

Markmið frumvarpsins er þannig að tryggja að ekki verði skortur hér á landi á nauðsynlegum persónuhlífum fyrir heilbrigðisstarfsmenn til að hefta eins og kostur er útbreiðslu Covid-19-sjúkdómsins og til að takast á við afleiðingar af frekari útbreiðslu sjúkdómsins. Áhersla er þó lögð á að innflytjendur þeirra persónuhlífa sem hugsanlega verður heimilt að flytja inn án CE-merkinga tryggi að hlífarnar uppfylli viðurkenndar öryggis- og heilbrigðiskröfur enda þótt þær séu ekki CE-merktar.

Áður en Vinnueftirlitið veitir heimild til innflutningsins mun stofnunin því meta hvort þær persónuhlífar sem um ræðir hverju sinni uppfylli viðurkenndar öryggis- og heilbrigðiskröfur sem talið er að verði að gera til slíks búnaðar.

Ekki er gert ráð fyrir að undanþága frá CE-merkingum gildi um almennan innflutning á persónuhlífum heldur eingöngu persónuhlífar sem eru nauðsynlegar fyrir heilbrigðiskerfið í tengslum við útbreiðslu Covid-19 sjúkdómsins. Þar sem gengið er út frá því að um tímabundið ástand sé að ræða er jafnframt gert ráð fyrir að þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu gildi í afmarkaðan tíma eða einungis til loka þessa árs. Þá er efni frumvarpsins í samræmi við tilmæli framkvæmdastjórnar ESB um samræmismat og markaðseftirlit í tengslum við yfirvofandi hættu vegna Covid-19 sjúkdómsins.

Virðulegi forseti. Áhrif frumvarpsins eru fyrst og fremst þau að unnt verður að tryggja nægjanlegt framboð af persónuhlífum fyrir heilbrigðisstarfsfólk hér á landi þrátt fyrir hugsanlegan skort á slíkum búnaði innan Evrópu. Er þetta einkum mikilvægt í ljósi þess að birgðir á persónuhlífum fara ört minnkandi í landinu og óvissa er um hvort framleiðendur CE-merktra persónuhlífa geti annað eftirspurn á Evrópska efnahagssvæðinu við þær aðstæður sem nú eru uppi og ekki sér fyrir endann á.

Ég legg því mikla áherslu á að þetta frumvarp verði samþykkt á Alþingi sem allra fyrst og legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. velferðarnefndar.