150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

breytingartillögur stjórnarandstöðunnar við dagskrármál.

[10:03]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Sem fyrr óska ég hæstv. forsætisráðherra góðs gengis í því að fást við þau stóru viðfangsefni sem verið er að takast á við núna og bíða. Við í Miðflokknum höfum einsett okkur að vinna með ríkisstjórninni og liðka fyrir því að öll mál sem til úrbóta horfa komist sem hraðast áfram og reyna að bæta þau ef þörf er á eins og kostur er. Raunar held ég að þetta sé afstaða allra flokkanna í stjórnarandstöðu, að þeir hafi sýnt að þeir séu reiðubúnir að vinna með stjórninni, enda eðlilegt við þessar aðstæður að menn vinni sem mest saman.

Nú hafa stjórnarandstöðuflokkarnir sett saman dálítinn lista af breytingartillögum við eitt þeirra mála sem eru til umræðu hér í dag. Það snýr að fjárfestingum og raunar höfðu forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar sagt áður að það sem kynnt var fyrir nokkrum dögum í Hörpu væri einhvers konar upphafspunktur eða byrjun á aðgerðum, þörf yrði á meiri aðgerðum. Nú hefur komið glögglega í ljós, held ég að mér sé óhætt að segja, í millitíðinni að strax er þörf á meiri aðgerðum. Þarna reynum við í stjórnarandstöðunni að leggja eitthvað af mörkum með því að bæta aðeins við, ekkert mjög verulega, enda er þetta fyrst og fremst viðbætur við það sem ríkisstjórnin hefur lagt fram. Fyrir vikið spyr ég í ljósi þess að við hljótum öll að vilja vinna saman við þessar aðstæður og við höfum reynt að gera það í stjórnarandstöðunni: Er hæstv. forsætisráðherra tilbúin að leyfa sínu þingliði, þingliði meiri hlutans, að styðja þær breytingartillögur séu þær mönnum að skapi? Mun hæstv. forsætisráðherra a.m.k. gefa sínum þingflokki (Forseti hringir.) leyfi til að styðja við þær breytingartillögur sem horfa mjög til úrbóta?