150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

breytingartillögur stjórnarandstöðunnar við dagskrármál.

[10:06]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Fyrst vil ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir bæði fyrirspurnina og góð samskipti í kringum allar þær aðgerðir sem við höfum haft til umræðu á vettvangi þingsins undanfarnar vikur. Ég ítreka það sem hv. þingmaður sagði, það er rétt að við höfum átt mjög gott samtal undanfarnar vikur í kringum þennan veirufaraldur við bæði Miðflokkinn og aðra stjórnarandstöðuflokka og ég þakka fyrir það. Það er ekki sjálfgefið.

Hv. þingmaður reifar sérstaklega viðbótartillögur vegna fjárfestinga frá stjórnarandstöðuflokkunum upp á 30 milljarða kr., eins og ég hef skilið það. Ég hef litið svo á að þetta samtal ætti að eiga sér stað í fjárlaganefnd. Raunar hef ég heyrt að þar sé verið að leggja til viðbætur upp á 5 milljarða í nafni nefndarinnar allrar, þ.e. að fjárlaganefnd hafi komið sér saman um 5 milljarða viðbætur, en til viðbótar komi 30 milljarða tillaga frá ýmsum stjórnarandstöðuflokkum. Um það vil ég segja að við erum nú stödd í lok marsmánaðar 2020 og ég hef lagt á það áherslu að það sem við erum að leggja í fjárfestingar núna geti nýst á þessu ári. Þess vegna er fjárfestingapakkinn samsettur eins og hann er samsettur, til að mynda með tiltölulega miklu vægi samgönguframkvæmda því að þær er auðvelt að ráðast í mjög hratt og eru tilbúnar en aðra hluti tekur lengri tíma að hrinda í framkvæmd. Ég tel að breytingartillögurnar sem nefndin er að gera séu mjög góðar.

Hv. þingmaður spyr hvort ég muni leyfa þingliði mínu, eins og hann orðar það, að taka afstöðu til tillagna. Ég lít svo á að hver þingmaður sé bara bundinn af eigin sannfæringu en ég hef lagt á það áherslu að tillögur séu raunhæfar að því leyti að þær komist til framkvæmda á þessu ári og það sé eðlilegt jafnvægi milli ólíkra tegunda framkvæmda í pakkanum. Það eru stóru leiðarljósin hjá okkur í þessum málum.