150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

forgangsröðun í aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar.

[10:23]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Aðgerðir stjórnvalda taka ekki tillit til velsældar, segir hv. þingmaður. Það að við séum að gera ráð fyrir því að 20–30 þús. manns fari á hlutabætur, til þess að tryggja þeim áfram atvinnu, er það ekki í anda velsældar? Hv. þingmaður telur það greinilega ekki svo. Hún telur það ekki vera í þágu velsældar að verja 20–30 milljörðum í að tryggja afkomu fólks og tryggja ráðningarsamband þess við atvinnurekanda sinn. Það finnst mér merkileg niðurstaða úr þessari fyrirspurn, að hv. þingmaður líti ekki á það sem velsældarmál að halda uppi atvinnustigi í landinu. Við erum greinilega ósammála um það. Ég tel líka að fjárfesting ríkisstjórnarinnar í heilbrigðiskerfinu undanfarin ár, með sérstakri áherslu á geðheilbrigðismál, sýni sig nú hafa skipt máli. Ég tel að sú fjárfesting skipti svo sannarlega máli fyrir velsæld í landinu. Ég undrast að hv. þingmaður sé mér ósammála um það að fjárfestingar okkar í heilbrigðismálum, í því að tryggja fólki atvinnu, í því að tryggja afkomu fólks séu anda velsældar. Ég held að við þurfum að eiga dýpra samtal um þetta því að við erum greinilega algjörlega ósammála um þau mál.