150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

greining Covid-19.

[10:27]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég er nú ekki heilbrigðisstarfsmaður sjálf eða læknir eða nokkur annar slíkur þannig að ég treysti mér ekki til að greina sjúkdómseinkenni hv. þingmanns og enn þá síður aftur í tímann. En ég vil hins vegar segja að það kann að vera afar áhugavert fyrir íslenskt samfélag, og um það hefur raunar verið rætt, að kanna ónæmi í samfélaginu. Á einhverjum tímapunkti kann það að vera sérstaklega áhugavert að kanna hvort fólk hafi fengið Covid-19 á fyrri stigum og jafnvel með mjög litlum einkennum en beri í sér ónæmi. Það er eitt af því sem hefur verið rætt að kunni að vera skynsamlegt að gera.

Aðgerðir okkar virðast vera að skila mjög miklum árangri. Við erum nú þegar að prófa umtalsvert fleiri en nokkurt annað ríki og Íslensk erfðagreining heldur áfram skimunum sínum úti í samfélaginu. Nú hefur það komið í ljós á síðustu dögum, en við verðum væntanlega að vera með enn þá fleiri daga undir í því, að niðurstaða Íslenskrar erfðagreiningar að því er varðar smit í samfélaginu almennt hjá fólki sem hefur lítil einkenni er komið undir hálft prósent í nýjustu tölum. Núna hefur Íslensk erfðagreining rætt möguleika á því að fara að kanna dreifingu hjá almenningi víðar í samfélaginu, mögulega úti um land sem ég held að gæti verið afar gagnlegt. Það hefur verið gæfa okkar hér á Íslandi að vera samferða vísindasamfélaginu í því að taka afstöðu í hverju skrefi til þess sem þarna er undir og ákvarðana heilbrigðiskerfisins sem hafa verið samtvinnaðar þessum vísindalegu áherslum og m.a. er það sem hv. þingmaður nefnir hér með óbeinum hætti, þ.e. að fara yfir stöðu ónæmis í samfélaginu.