150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

frysting launa og fleiri aðgerðir.

[10:40]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að lýsa ánægju með það að hæstv. ráðherra hafi frá upphafi sagt að það skipti máli að gera frekar of mikið en of lítið í þessu ástandi. Þetta sendir mikilvægan og jákvæðan tón út í samfélagið og hefur verið fylgt eftir í öllum störfum ríkisstjórnar og þings, að manni sýnist. Í þeim málum sem þingið er með til afgreiðslu hér í dag kemur svipað fram. Það er brugðist við því að ástandið er kvikt og að alltaf er þörf á frekari aðgerðum. Þess vegna eru talsverðar breytingar á málunum gerðar á þeirri viku sem þau liggja hér hjá þinginu, allar til bóta. Mig langar að nefna eina sem var beint til þingsins eftir afgreiðslu ríkisstjórnar, sem er mjög jákvætt skref og sýnir ákveðna samstöðu æðstu valdhafa með almenningi, sem er það að frysta laun þingmanna og á að giska 200 annarra starfsmanna hins opinbera. Þetta skiptir ekki miklu fyrir ríkissjóð, hleypur væntanlega á einhverjum tugum milljóna á árinu, en sýnir að hér eru allir á sama báti.

Hins vegar er viljinn til að sýna samstöðu í verki töluvert mikill í samfélaginu og mig langar að spyrja ráðherra hvort hann hafi skoðað einhverjar almennari aðgerðir en frystingu launa lítils hóps, aðgerðir sem eru jafnframt með meiri heimtum, hvort aflögufært fólk geti sýnt samstöðu, t.d. með því að setja sérstakt álag á skatt af fjármagnstekjum og launatekjum í efsta skattþrepi. Þetta væri tiltölulega lág upphæð fyrir einstaklinga, segjum 3,5%. Slík upphæð gæti skilað um 2 milljörðum kr. á seinni helmingi árs af fjármagnstekjum og nokkur hundruð milljónum af launatekjum og væri hægt að nýta með beinum hætti til að styrkja opinberu þjónustuna sem nú mæðir svo mikið á.