150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[11:23]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Þegar hv. efnahags- og viðskiptanefnd fékk þetta frumvarp til umfjöllunar var ekki gert ráð fyrir að greiðsla kæmi til öryrkja með þeim hætti sem hér er lagt til. Fari ég rétt með — ég horfi nú á hv. þm. Birgi Þórarinsson sem situr í fjárlaganefnd — mun fjárlaganefnd hafa átt frumkvæði að því að leggja til fjármuni sem gerði okkur kleift að setja inn orlofsauka, ef ég mætti kalla það svo, sérstakar greiðslur til öryrkja. Mættu þær vera hærri? Já, vissulega, hv. þingmaður, (Gripið fram í.) en við erum þó að stíga þetta skref. Getum við nálgast þær aðgerðir og þær tillögur sem hér liggja fyrir þannig að þetta sé ekki lokakaflinn í því sem við þurfum að fara að gera? (Forseti hringir.) Þetta er bara fyrsta skrefið. Þetta er fyrsti leikhluti. Eini vandi minn er sá að ég veit ekki hversu margir leikhlutarnir verða en þetta er bara sá fyrsti.