150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[11:29]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er vert að hafa í huga að allir bankarnir hafa gefið það út að þeir muni ekki greiða arð á þessu ári. Frekasti eigandi til arðgreiðslna er ríkissjóður í gegnum árin, svo merkilegt sem það er. Eigum við ekki bara að líta á þetta, hv. þingmaður, sem tækifæri fyrir íslenska bankakerfið til að endurheimta það traust sem glataðist í hruninu? Ég hef séð hvernig íslensku bankarnir brugðust mjög snöggt við núna þegar ósköpin skullu á okkur þar sem þeir buðu strax einstaklingum ákveðið skjól, buðu fyrirtækjum líka ákveðið skjól og þeir hafa verið að lækka vexti til einstaklinga og fyrirtækja, m.a. á íbúðalánum til fyrirtækja. Þeir hafa stigið skref í rétta átt en hins vegar mun reyna á íslenska (Forseti hringir.) fjármálakerfið. Nú er búið að auka svigrúm bankanna og getu til að styðja við íslensk heimili og íslensk fyrirtæki og þá gera þeir það. Ég ætlast til þess.