150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[12:19]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég kem hér upp til að gera grein fyrir fyrirvara hv. þm. Smára McCarthys og þar af leiðandi okkar Pírata við aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Búast má við verulegum efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldursins og því er mikilvægt að stjórnvöld bregðist við með umfangsmiklum og árangursríkum mótvægisaðgerðum. Það er auðvelt að styðja flestar þær aðgerðir sem lagðar eru til í frumvarpinu þrátt fyrir að þær séu ekki nógu umfangsmiklar, sumar þeirra séu ekki líklegar til árangurs og loks að áherslurnar skorti framsýni. Frestun á gjalddögum skatta, barnabótaauki, endurgreiðsla virðisaukaskatts, lækkun bankaskatts, viðbótarfyrirgreiðsla og ríkisábyrgðir eru allt aðgerðir sem eru til þess fallnar að styðja við rekstur hagkerfisins í núverandi árferði.

Við Píratar fögnum því að nefndin hafi sammælst um að taka með skýrum hætti fyrir arðgreiðslur og annars konar fjármagnsflutninga út úr fyrirtækjum til eiganda þeirra meðan á ríkisábyrgðum lána stendur. Því miður munu þessi skilyrði ekki takmarka aðgengi að slíkum lánum fyrir fyrirtæki sem hafa greitt út verulegar fjárhæðir í arð að undanförnu en bregðast við versnandi ástandi með hópuppsögnum í stað fjármagnsinnspýtingar. Það má sýna því skilning að slíkar takmarkanir væru flóknar í útfærslu en við viljum nota tækifærið til að minna fyrirtækin sem um ræðir á samfélagslega ábyrgð þeirra.

Efast má um mikilvægi og gagnsemi aðgerða á borð við niðurfellingu gistináttaskatts og útgreiðslu séreignarsparnaðar enda ýmist um óverulegar fjárhæðir að ræða eða svo sértækar aðgerðir að tiltölulega fáir njóta góðs af. Sérstakur barnabótaauki mun vissulega nýtast barnafólki eitthvað en aðgerðin er ómarkviss og rökin að baki útfærslu hennar eru ósannfærandi.

Þá er gagnrýnivert að aðgerðirnar snúa fyrst og fremst að stærri fyrirtækjum. Fyrirtæki þurfa í raun að hafa náð ákveðinni stærð til þess að frestun á gjalddögum skatta og aðgangur að lánum hafi grundvallaráhrif á lífvænleika rekstursins. Þannig er horft fram hjá veruleika margra smærri rekstraraðila og einyrkja eins og listamanna, sjálfstætt starfandi iðnaðarmanna og sérfræðinga sem ekki geta nýtt sér slíka fyrirgreiðslu án þess að hún hefði langvarandi tekjuskerðingu í för með sér fyrir viðkomandi.

Heilt yfir söknum við róttækari aðgerða í þágu almennings í landinu. Búast má við verulegu atvinnuleysi og tekjuskerðingu almennings og ekki verður séð að nóg sé að gert til að bregðast við því.

Forseti. Þann 16. september 2019 sagði Ángel Gurría, aðalritari OECD, á ráðstefnu í Reykjavík, með leyfi forseta:

„Við þurfum að byggja upp snjallara hagkerfi, nýtt hagkerfi þar sem lögð er áhersla á heilbrigði og velsæld mannkyns.“

Þetta er rétt. Sú sem hér stendur telur mögulegt að Covid-19 heimsfaraldri hafi nú þegar leyst úr læðingi uppsafnaðan þrýsting á hagkerfið sem kemur til vegna aukinnar sjálfvirknivæðingar, breytinga í alþjóðaviðskiptum og undirliggjandi breytinga á vinnumarkaði. Ef það er tilfellið, og ekki síst ef heimsfaraldurinn hefur veruleg og varanleg áhrif á viðskiptakerfi heimsins og vinnumarkað, er ljóst að þær aðgerðir sem birtast í þessu frumvarpi verða aldrei annað en tímabundinn vegatálmi sem hefur takmarkað gagn gagnvart nýrri framtíðarskipan alþjóðlega hagkerfisins. Heimurinn virðist nú þegar hafa breyst varanlega og því er mikilvægt að stjórnvöld aðlagist þeim breytingum. Ef það er tilfellið, og jafnvel þó að svo væri ekki, er tímabært að líta til nýrra hugmynda sem hafa komið fram og notið vaxandi stuðnings fræðimanna á undanförnum árum. Þær miða að því að gera hagkerfið mannvænna og sjálfbærara og stuðla að velsæld í öðrum skilningi en einungis hefðbundinn hagvöxtur felur í sér. Í slíkri nálgun væri lögð áhersla á að tryggja grunnframfærslu almennings og beina kröftum ríkisins að því að efla nýsköpun og skapandi greinar og fjármagna vel rannsóknir og þróun, ekki síst í vísindagreinum þar sem unnið er að lausnum við aðsteðjandi loftslagsvá.

Ljóst er að aðsókn í Atvinnuleysistryggingasjóð mun á komandi mánuðum verða veruleg. Þegar er búið að búa þannig um hnútana að fólk geti fengið hlutagreiðslur úr sjóðnum vegna minnkaðs vinnuframlags. Það vantar í raun bara herslumuninn til að komið verði á borgaralaunum í formi neikvæðs tekjuskattsþreps en að stíga það skref fæli í sér umbreytingu á Atvinnuleysistryggingasjóði til samræmis við það sem vænta má af hagkerfi framtíðarinnar. Þannig væri tekjum undir ákveðinni krónutöluupphæð mætt með mótframlagi ríkisins sem færi minnkandi eftir því sem tekjurnar aukast. Þannig væri fólki með engar tekjur tryggt viðunandi lífsviðurværi, en fólk sem hefði töluverðar en þó ónógar tekjur hefði fyrir vikið meira svigrúm vegna þess sem bætt væri við. Aðgerð sem þessi fæli í sér minni yfirbyggingu fyrir ríkið en nú er og minni skriffinnsku fyrir alla. Hún myndi ná betur yfir öll tilfelli en ljóst er að mörg sértilfelli eru til staðar í núverandi kerfi þar sem fólk í erfiðri fjárhagslegri stöðu fellur á milli. Það er áhyggjuefni, forseti.

Efnahagsleg viðbrögð við yfirstandandi heimsfaraldri geta ýmist byggst á trú yfirvalda á getuna til að viðhalda fyrra ástandi eða trú þeirra á að það sé ekki raunsætt. Við Píratar teljum umræddar aðgerðir ágætar til þess að viðhalda tímabundið ríkjandi kerfi en teljum þó að aðstæður krefjist þess að horft sé til nýrra möguleika. Við styðjum þessar aðgerðir, forseti, með þeim fyrirvörum sem fram hafa komið og í ljósi þess skamma tíma sem er til stefnu fyrir fyrstu viðbrögð stjórnvalda en köllum þó eftir víðtækari samvinnu ríkisstjórnarinnar við Alþingi á komandi vikum og mánuðum um að endurhugsa framtíðarskipan hagkerfisins.