150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[13:08]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir andsvarið. Ég kom inn á það í andsvari áðan og aftur nú að það er alveg rétt hjá þingmanninum að bæta þarf barnabótakerfið eins og það er núna. Einmitt af því að ég held að við þingmaðurinn séum sammála um að kerfið sé ekki nægilega gott, þó að við förum ekki út í smáatriði um hvernig við vildum breyta því, hefðum við áfram haldið við sama kerfinu með því að setja allan peninginn inn í óbreytt kerfi, við hefðum haldið við sömu ósanngirninni ef við getum sagt sem svo.

Varðandi frekari útfærslu á Allir vinna færi hv. efnahags- og viðskiptanefnd í þá vinnu strax eftir páskahlé, ef ég mætti ráða þessu einn, og reyndi að klára fyrir vorið að finna einhverjar leiðir eða leiðbeiningar, væntanlega í samvinnu við Skattinn og ráðuneytið, því að það er mjög mikilvægt. Ég bendi hv. þingmanni á að sá vinkill sem bætist við með því að taka bílgreinarnar inn í, þó að vissulega séu þær karllægari stétt en aðrar, er að beina átakinu í „neyslugrein“, grein þar sem heimilin stunda tiltekna neyslu en ekkert endilega miklar framkvæmdir eins og húsbyggingar. Þess vegna kæmi til greina að finna einmitt greinar sem er meira sinnt af konum og eru neyslulægari, ef það er orð, og horfa til þess í því samhengi að bæta þeim inn í þetta úrræði.