150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[14:19]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka undirtektir hv. þingmanns varðandi þá hugmynd að hér þurfi að ríkja fullt gagnsæi og traust á aðgerðunum. Eins og ég skil hv. þingmann er hann sammála því að upplýst verði um þau fyrirtæki sem munu njóta ríkisábyrgðar. Ef ekki má hann endilega leiðrétta það, ef ég hef misskilið hann hvað þetta varðar. Ég held að það skipti miklu máli að það heyrist úr þessum stól að formaður fjárlaganefndar leggi þann skilning í þetta úrræði að við þurfum að upplýsa hvaða fyrirtæki njóti ríkisábyrgðar. Við þurfum að læra svolítið af reynslunni. Eftir bankahrunið var heilmikil umræða um vald bankastofnana gagnvart atvinnulífinu, að velja hvaða fyrirtæki myndu fá að lifa og hvaða fyrirtæki myndu deyja, ef svo má segja. Hér skiptir rosalega miklu máli að það verði gagnsæi og traust og jafnræði. Það er ekki hægt að tryggja það nema það sé einfaldlega upplýst með skýrum hætti hvaða fyrirtæki njóta ríkistryggðra (Forseti hringir.) lána því að það hefur að sjálfsögðu áhrif á samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja gagnvart öðrum fyrirtækjum.