150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[14:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka spurninguna. Ég deili skoðunum hv. þingmanns en það er kannski bara helst við þann að sakast sem hér stendur að við erum að setja aukna fjármuni í Rannsóknasjóð, Innviðasjóð og Tækniþróunarsjóð. Við erum með tiltölulega lágt árangurshlutfall. Fjölmörg verkefni sem hljóta háa einkunn hafa ekki hlotið náð en við erum svolítið bundin af þingsályktunartillögunni að því leyti að við erum að reyna að finna út hvað skilar sér inn í þau viðmið sem sett eru fram. Ég hef líka ítrekað sagt að þetta eru ekki lokaaðgerðir. Við í nefndinni getum kannað stöðuna, um hvaða verkefni er að ræða og hvaða árangri það myndi skila. Ég endaði síðustu ræðu á að segja að við myndum ná þeim markmiðum sem felast í tillögunni, sem er auðvitað að bregðast (Forseti hringir.) hratt við þessu ástandi. Þess vegna eru viðmiðin fyrir þetta ár og inn á næsta ár og þau þurfa líka að vera mannaflskrefjandi þannig að við sköpum störf.