150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[14:35]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka góðar spurningar. Aðeins varðandi eldri borgarana vil ég benda á að nefndin er hér í krafti félagslegs stuðnings og öryggis að setja 40 milljónir til að mæta vanda í geðheilbrigðismálum og það er algjörlega óháð aldri. Við vitum að einangrun eldri borgara er mikil þannig að það ætti að nýtast í því verkefni.

Síðan erum við með 100 millj. kr. átak til að taka utan um heimilislausa. Þar hefur lengi verið talað um hugmyndafræði sem snýr að því að þak yfir höfuðið er fyrsta hugsun. Það hefur einhvern veginn aldrei náðst að setja það verkefni almennilega af stað, en nefndin var sammála um að reyna akkúrat við þessar kringumstæður að láta það verkefni fara almennilega af stað. Þar eru 100 milljónir þar.

Varðandi öryrkja er fjárlaganefnd að bregðast við. Fjölmargar nefndir hafa tekist á við kerfið sem er utan um almannatryggingarnar og örorkulífeyrisgreiðslurnar. Það hefur aldrei náðst gagnger breyting sem nýtist öllum. Þess vegna erum við stundum að reyna að bregðast við því með svona aðgerðum. Öll nefndin er einhuga um að gera það og vonandi tekst okkur síðan að taka þetta kerfi til gagngerrar endurskoðunar öllum til hagsbóta.

Varðandi bankaskattinn kemur það ágætlega fram í hvítbók og víðar að við getum ekki tryggt beinlínis með lögum eða einhverjum boðum að vextir lækki þar með en við treystum á það og lánastofnanir sjálfar hafa beitt þeim rökum (Forseti hringir.) að það geti leitt til þess að þær geti lækkað gjöld og vexti þess vegna og við treystum því.