150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[14:37]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni, formanni fjárlaganefndar, fyrir framsöguna og vil nota þetta tækifæri til að þakka honum fyrir mjög gott samstarf í nefndinni við úrvinnslu á þessum tillögum. Þó að því miður hafi ekki náðst sú samstaða sem maður hefði óskað eftir um frekari aðgerðir náðist ágætissamstaða um þær aðgerðir sem var þó ráðist í. Ekki má gleyma að þakka fyrir það sem gott er og forysta formanns fjárlaganefndar í þeirri vinnu var til mikillar fyrirmyndar.

Það sem ég velti fyrir mér og er undirliggjandi í breytingartillögum minni hluta við aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar er að fjöldi hagfræðinga, fjöldi hagsmunasamtaka, Samtök iðnaðarins, Viðskiptaráð og fleiri hafa bent á að þetta sé engan veginn nóg. Við sjáum í alþjóðlegum samanburði að við erum hálfdrættingar á við hin Norðurlöndin í aðgerðum stjórnvalda. Við sjáum, sem er auðvitað það eina sem skiptir máli í þessu samhengi, að sennilega fara á þriðja tug þúsunda ef ekki fleiri á hlutabætur um þessi mánaðamót og einhverjar þúsundir til viðbótar eru að missa atvinnu sína. Þetta er mjög alvarleg krísa. Þess vegna hef ég nokkrar einfaldar spurningar til hv. þingmanns, formanns fjárlaganefndar:

Eru þær aðgerðir sem við erum að ræða hér nægar að mati formanns fjárlaganefndar? Er honum kunnugt um einhverjar frekari aðgerðir í fjárfestingum af hálfu stjórnvalda sem ráðast eigi í á þessu ári? Í þessari umræðu hefur ítrekað verið sagt að meira yrði gert. Ég spyr: Hvenær? Er hv. þingmanni, formanni fjárlaganefndar, kunnugt um hvenær ríkisstjórnin muni kynna þær (Forseti hringir.) og hvað í þeim felst?