150. löggjafarþing — 84. fundur,  30. mars 2020.

fjáraukalög 2020.

695. mál
[14:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir þessar krefjandi spurningar, þær eru virkilega góðar. Ég vil hins vegar byrja á að þakka góð orð og nota um leið tækifærið og þakka hv. þingmanni sem lagði mjög margt gott til, m.a. í þeim breytingartillögum sem hann stendur að með minni hluta. Ég þakka jafnframt öðrum nefndarmönnum, það var gaman að vinna að þessu máli vegna þess að samvinnan, tillögurnar og hugarfarið var sterkt.

Varðandi það hvort þessar aðgerðir séu nægar eða þurfi fleiri leyfi ég mér að fullyrða að þær eru ekki nægar. Þetta er ekki endanlegt, það þarf fleiri. Óvissan er hins vegar mjög mikil. Ég er alltaf þannig þenkjandi að þegar óvissa er mikil og aðstæðurnar ekki alveg þannig að maður viti hvernig skrefið kemur niður styttir maður skrefin og tekur frekar fleiri, styttri og öruggari skref. Ég hef hvatt mína góðu ríkisstjórn og hvet þingið og alla hv. þingmenn til að huga að þessu. Ég vil sjá fleiri fjárauka í þessa veru og það fyrr en seinna. Við eigum ekki að þurfa að bíða fram á haust eftir einum stórum fjárauka. Þetta er mín skoðun og ég hef komið henni á framfæri.

Þingmaður spyr hvort mér sé kunnugt um frekari aðgerðir. Ég veit að það er allt í skoðun á hverjum einasta degi en ég hef ekki verið sérstaklega upplýstur um hvað nákvæmlega er í skoðun núna eða hvenær það verður. Ég nota hins vegar öll tækifæri, og ég segi það hér, til að hvetja til þess og þá erum við virkilega að vinna í samræmi við lög um opinber fjármál þegar framkvæmdarvaldið kemur með fjárauka af þessu tagi og biður þingið um heimild til að fara í framkvæmdir áður en búið er að fara í framkvæmdir í stað þess að bíða og koma með einn stóran fjárauka og segja: (Forseti hringir.) Við gerðum þetta, viljið þið ekki samþykkja það?